140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

lengd þingfundar.

[16:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Einu upplýsingarnar sem við höfum fengið hér er að Blöndal og Ragnheiður fara illa saman. Það er gömul saga og ný þegar kemur að nöfnum. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Það er nú samt varla hægt að grínast hérna núna þegar hæstv. ríkisstjórn tekur enn og aftur þátt í þeim leik, því miður vil ég segja og það veldur mér miklum vonbrigðum, að svara ekki einföldum spurningum frá okkur hv. þingmönnum þar sem við förum einungis fram á að fá að kynna okkur gögn áður en við tökum ákvarðanir sem varða alla þjóðina, varða skattgreiðendur. Þetta eru tugmilljarða ákvarðanir. (Gripið fram í.) Ég segi það alveg eins og er, virðulegi forseti, ég er afskaplega leiður (Forseti hringir.) að sjá þessa afgreiðslu og það, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, veldur mér (Forseti hringir.) vonbrigðum.