140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi.

[10:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna mjög orðum hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál sem verði aftur að reyna að koma af stað. Ég held að við eigum alls ekki að láta staðar numið þó að það hafi ekki tekist að leiða menn saman í fyrra. Þetta er stórbrotið mál, tugmilljarðar í samgönguframkvæmdir sem annars kæmu ekki á framkvæmdastig í samgöngumálum, fjármagn sem annars færi annað, úr landi eða í aðra geira. Við getum náð þúsundum starfa og milljörðum inn í samgöngumannvirki með þeim afleiðingum að atvinnustigið mundi stórbatna, öryggi vegfarenda batna til muna og framkvæmdir sem annars tæki langan tíma að koma af stað, eins og tvöföldun Suðurlandsvegar, Vesturlandsvegar og lagning Sundabrautar, kæmu til framkvæmda sem annars gerðist ekki fyrr en eftir langan tíma, einfaldlega af því að það er ekki til fjármagn í ríkissjóði.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og spyr hana beint að því sem 1. þingmaður Suðurkjördæmis hvort hún muni ekki hafa forustu að því á næstu dögum að kalla saman fulltrúa sveitarfélaganna á þessum svæðum, þingmannahópa og auðvitað (Forseti hringir.) fagráðherrann til að reyna að koma þessu af stað með handafli sem allra fyrst.