140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

deilur við ESB um makrílveiðar.

[10:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt efni kaflanna fellur það með þeim hætti sem hv. þingmaður leiddi fram. Það er alveg rétt hjá honum að krafa um gagnkvæmar fjárfestingar, sem eru hluti af því regluverki sem nú er við lýði innan Evrópusambandsins, er eitt af því sem mun gera þessa samninga erfiða. Þeir verða mjög erfiðir. Það verður langerfiðast tel ég að semja um fiskinn. En guð láti gott á vita. Ef hv. þingmaður af samtölum sínum við þingmenn Evrópusambandsins, sem ég veit að hann hefur verið í góðri snertingu við, hefur komist að þeirri niðurstöðu að makríllinn verði það erfiðasta þá held ég að blikurnar séu kannski ekki jafnþungar í þessum kafla eins og margir ætla. Eins og hv. þingmaður veit hafa aðrir þingmenn haldið því fram að önnur atriði, eins og kröfur um fiskúthlutun innan lögsögu okkar, verði mjög þungbærar. Ég hef fært rök að því að ég telji það ólíklegt en það (Forseti hringir.) hefur verið helsti ásteytingarsteinninn að mati annarra.