140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

samningar um sölu sparisjóðanna.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki óvön því að þessi hv. þingmaður fari með dylgjur úr ræðustól. Og hann gerði það einmitt núna. Dylgjurnar sem hann fór með voru að sú að sem hér stendur hefði ekki lesið Icesave-samninginn. Þetta er alrangt. Ég bið hv. þingmann að finna þeirri fullyrðingu sinni stað héðan úr ræðustól.

Þetta er eins og margt annað sem frá þessum hv. þingmanni kemur. Ég fullyrði að stjórnsýslan, eins og búið er að breyta henni á margan hátt, hafi sjaldan eða aldrei verið opnari en nú er. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmann að rifja upp ýmislegt í fortíð sinni og ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna. Skemmst er að minnast til dæmis einkavæðingar bankanna á sínum tíma. Þá var erfitt að fá fram gögn þar sem allt var lokað og læst inni og erfitt að sjá að fylgt væri nokkru regluverki. Það var ekki fyrr en sú sem hér stendur varð forsætisráðherra að þau gögn voru gerð opinber. Hv. þingmaður ætti bara að líta í eigin barm. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um og var hér mest til umræðu í gær, verður hann að líta til þess að þarna voru samningar gerðir milli aðila þar sem áskilið var að samningarnir yrðu ekki birtir fyrr en búið væri að uppfylla ákveðin skilyrði. Þessir samningar voru afhentir í trúnaði í tveimur nefndum í gær eins og ég skil málið best. Ég held að það dæmi sem menn eru að reyna að draga hér upp og gera tortryggilegt sé ekki versta dæmið sem hægt er að finna í stjórnsýslunni þar sem gögn hafa ekki komið inn í nefndir eða fyrir Alþingi.

Ég bið hann um að rifja líka upp eigin fortíð í ríkisstjórn og sem ráðherra og hvort hann geti staðið hér keikur og sagt að öll gögn í stjórnsýslunni hafi verið opin sem kallað var eftir (Forseti hringir.) af þingmönnum og þingnefndum á sínum tíma.