140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við fáum nú loksins tækifæri á Alþingi að ræða einkavæðingu sparisjóðanna við hæstv. fjármálaráðherra. Það varð hin vegar smáágreiningur um það hvað við ættum að kalla þessa umræðu, framtíð sparisjóðanna eða einkavæðingu. Ég vil gjarnan ræða um einkavæðingu sparisjóðanna.

Við hæstv. fjármálaráðherra höfum ekki verið sammála um þá aðferðafræði sem hann hefur notað við einkavæðingu fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, svo ég sé nú temmilega hógvær í máli mínu, hvað þá þá leynd og það pukur sem einkennt hefur vinnubrögð ráðherrans við einkavæðingu Byrs sem hann var nú loksins að fá lagaheimild til að selja, og líka einkavæðingu ríkisbankanna þriggja. Það getur vissulega verið þannig að aðstæður séu sérstakar og freistandi að stytta sér leið, sérstaklega þegar Alþingi hefur veitt manni gífurlegar valdheimildir eins og þingmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon orðaði í nefndaráliti sínu við setningu neyðarlaganna sem enn eru í gildi.

Þó að vald eigi það til að spilla hinum bestu mönnum vil ég gjarnan trúa hinu besta um náungann, jafnvel hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon. Ég vil trúa því að enn megi finna leifar af þeim þingmanni sem gagnrýndi á sínum tíma einkavæðingu fjármálafyrirtækja með þessum orðum, með leyfi forseta:

„[M]ikið skortir á að aðgerðir í þessum efnum hafi verið undirbúnar sem skyldi, stefna mótuð og skýrar verklagsreglur ákveðnar fyrir fram. Sú gagnrýni sem hér er til umræðu lýtur að öllu þessu en þó sérstaklega óöguðum og óvönduðum vinnubrögðum …“

Ég vil trúa að enn megi finna leifar af þeim þingmanni sem vildi standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna og hlut þeirra í fjármálaþjónustu, þeim þingmanni sem trúði á hugmyndafræði sparisjóðanna.

Mörg mistök hafa verið gerð varðandi lagaumhverfi sparisjóðanna, ekki síst þau að viðskiptavinir skyldu ekki lengur hafa aðkomu að stjórnun sjóðanna og að leyft skyldi vera að hlutafélagavæða þá. Rekstrargrundvöllur brást þegar viðskiptabankar fóru að líta á innlenda innlána- og útlánastarfsemi sem hagnaðarlausa starfsemi. Afleiðingin varð nauðsynleg aðkoma ríkisins að endurskipulagningu sparisjóðanna. Nú á ríkið eignarhlut í fimm sparisjóðum og tveir af þeim hafa þegar verið settir í söluferli. Ákvarðanir eftir hrun hafa gert rekstur sparisjóðanna enn erfiðari. Vil ég nefna þar 110%-leiðina hjá ríkisstjórninni, skatt sem hefur verið lagður á fjármálafyrirtæki, verið er að boða fjársýsluskatt, auknar álögur vegna innstæðutrygginga, en sparisjóðirnir eru fyrst og fremst fjármagnaðir með innstæðum, og allt þetta hefur gert rekstur sparisjóðanna enn erfiðari.

Á sama hátt og Alþingi og stjórnvöld hafa gert starfsumhverfi sparisjóðanna erfitt er okkur í lófa lagið að bæta umhverfið og auðvelda þeim starfsemi. Á sama hátt og við getum hækkað skatta á fyrirtæki getum við líka lækkað þá eða afnumið. Þó að nokkrar sveitarstjórnir, fyrirtæki og lífeyrissjóðir hafi sýnt áhuga á að koma að rekstri sparisjóða í heimabyggð sinni hefur lítið heyrst af viðbrögðum við þeim tilboðum. Sparisjóðirnir hafa jafnframt lagt fram tillögur um að fækka sparisjóðum úr tíu í þrjá til fimm og að byggðir verði upp landshlutasparisjóðir. Flokksþing framsóknarmanna hefur ályktað í samræmi við þetta.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hver er stefna stjórnvalda varðandi einkavæðingu sparisjóðanna? Hvernig eru og verða væntanlegir kaupendur metnir með tilliti til kaupverðs og framtíðaráforma? Hver verða áhrifin af einkavæðingunni á stöðugleika fjármálakerfisins, þ.e. að vera með aðeins hugsanlega þrjá stóra banka? Er tímapunktur sölunnar heppilegur og hefur almennt verið rætt um það? Er ástæða til að lögfesta hámarkseignarhlut einstakra aðila? Á ríkið að halda eftir að lágmarki þriðjungseignarhlut eins og mér skilst að ráðherra hafi einhvern tíma velt fyrir sér? Telur ráðherrann enn þá að sparisjóðirnir eigi að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og að mikilvægt sé að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll, eða er kominn tími á náðarhöggið?