140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda, Eygló Harðardóttur þingmanni, fyrir umræðuna og eljusemi hennar í þessum málaflokki. Hennar krafta er sárt saknað í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.

Viðbrögð stjórnvalda við endurreisn fjármálafyrirtækja eru að mörgu leyti óverjandi. Gerð hafa verið hrikaleg mistök sem öll heimili í landinu eru að berjast við. Það er svo erfitt að ná utan um þetta vegna þess að sett er fram einhver leið eins og til dæmis að stofna Bankasýslu ríkisins, sem ég var ekkert endilega hrifin af en það var ákveðið að gera það, en svo fer fjármálaráðherra með eignarhlut ríkisins í Byr og SpKef eins og hvert annað rassvasabókhald pípulagningamanns, með fullri virðingu fyrir þeirri stétt manna.

Skilgreining Einsteins á geðveiki var að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við annarri niðurstöðu. Ég held að við verðum að reyna að læra af þeim mistökum sem gerð voru við fyrri einkavæðingu og fjársýslu alla og forðast að falla í sömu pyttina aftur og aftur og aftur.

Mér finnst mikilvægt að sparisjóðirnir lifi og að upprunaleg hugsjón þeirra verði endurreist. Ég vil samkeppni, ég vil valkosti og ég vil aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, en ég sé svo sem enga sérstaka ástæðu til að halda einhverju á lífi sem heitir sparisjóður en er ekki sparisjóður.