140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er einkennilegur tónn í þessari umræðu um sparisjóðina. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kemur hingað enn einu sinni og gefur í skyn að tilteknir þingmenn eða jafnvel ráðherrar séu geðveikir vegna gerða sinna. Skilgreining á geðveiki er að gera það sama aftur og aftur, sagði hún og gjóaði augunum á hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er svo sem ekkert nýtt hjá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem hefur lagt það í vana sinn þetta kjörtímabil að reyna að sjúkdómsgreina þingmenn, sérstaklega þá sem eru henni ósammála í stjórnmálum.

Hver er þá tónninn hérna sömuleiðis? Það er talað um einkavæðingu sparisjóðanna, rétt eins og stjórnvöld séu að einkavæða eitthvað sem þjóðin hafi stofnað til á sínum tíma, eins og til dæmis bankana þegar þeir voru einkavæddir. Er það svoleiðis? Hvað erum við að endurreisa? Erum við ekki að endurreisa eitthvað sem fellur og dettur á hausinn? Er það ekki þannig sem málið snýr að okkur? Hvers vegna fór það á hausinn? Vegna þess að við búum nú í því framtíðarlandi og í því framtíðarlandslagi sem fyrri stjórnvöld skópu okkur, þar á meðal hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði í þessu máli og var að velta fyrir sér framtíðarlandslaginu. Við búum í dag í því framtíðarlandslagi sem var skapað hér fyrir nokkuð mörgum árum. (Gripið fram í.) Menn skulu átta sig á því að það eru afleiðingar af vondum stjórnmálum, vondum stjórnmálamönnum, spilltum stjórnmálamönnum og kannski er svona komið fyrir sparisjóðunum vegna þess að stórir og sterkir viðskiptabankar báru fé á stjórnmálamenn. Kannski er þetta ein afleiðingin af því. Hver veit um það? (Gripið fram í: … málefnaleg …) Þetta er málefnalegt hjá mér. Á meðan stjórnmálamenn á þingi hafa ekki opinberlega gert upp styrkjamál sín og spillingarmál eins og þeim ber að geta hljótum við að geta dregið einhverjar ályktanir af því, (MT: Hefur ekkert breyst?) hv. þingmaður. Gegnspillt stjórnmálakerfi og gegnspillt viðskiptalíf (Gripið fram í.) varð sparisjóðunum að falli. Við vorum síðast (Forseti hringir.) í morgun að greiða atkvæði um tvo sparisjóði sem eru ágætt dæmi um það, virðulegur forseti.