140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:27]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu takast á ólík sjónarmið, annars vegar um samfélagslega stöðu og mikilvægi lítilla fjármálastofnana í sinni heimabyggð og hins vegar er grundvöllur fyrir rekstri sparisjóðs. Hér er um að ræða litlar einingar, á þessum markaði er hörð samkeppni, erfitt að viðhalda háum vaxtamun og svo er hlutafélagabankaformið að mörgu leyti áhugaverðari fjárfestingarkostur fyrir fjármuni einstaklinga, m.a. vegna takmarkana á arðgreiðslum í tilviki sparisjóða.

Það má heldur ekki gleyma því að það er auðvelt að stofna sparisjóði í dag hafi menn áhuga á því að láta á þetta viðskiptamódel reyna. Í breytingum sem gerðar voru á lögum um fjármálafyrirtæki á þessu kjörtímabili var skilið á milli og ef viðkomandi vill stofna viðskiptabanka er þar með lágmark hlutafjár 5 milljónir evra. Hafi menn hins vegar áhuga á því að stofna sparisjóð sem starfar á afmörkuðum staðbundnum markaði og er fyrst og fremst í einkabankastarfsemi er lágmarkið einungis 1 milljón evra. Þar með reyndi meiri hluti viðskiptanefndar að stuðla að því að hefðu menn áhuga á því að stofna sparisjóð gætu menn gengið þar fram.

Hér er hins vegar umræðan öll komin á hvolf og mér þætti vænt um að þeir sem fjalla um sparisjóðakerfið af rómantík leggi hugmyndir á borðið fyrir okkur hin sem höfum efasemdir um að ríkið eigi að koma með beinum hætti að rekstri sparisjóða. Eru menn að tala um opinberan stuðning við sparisjóðakerfið til frambúðar? Vilja menn hafa ríkisrekna sparisjóði (Gripið fram í: Afnema?) víða um land? Á ríkið að niðurgreiða starfsemi sparisjóðanna? Ef menn vilja geta þeir stofnað sparisjóð í dag og rekið hann á grundvelli annarra reglugerða en gilda um aðra viðskiptabanka. Það er ekkert því til fyrirstöðu að stofna sparisjóð dag. En ég spyr: Eru menn í stjórnarandstöðunni að kalla eftir því að hér fari í gang ríkisrekið sparisjóðakerfi? Ég er ekki (Forseti hringir.) spenntur fyrir því að styðja með fjármunum almennings við rekstur bankastarfsemi í landinu.