140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það sem kom fram í máli eins hv. þingmanns, það er mikilvægt að fá sem fyrst niðurstöður í þeirri rannsókn sem Alþingi hefur nú loksins ákveðið að gera á orsökum og aðdraganda vandræða sparisjóðanna. Það er bagalegt hversu lengi það dróst að sú rannsókn hæfist. Ég hygg að umræðan yrði aðeins öðruvísi og á sanngjarnari nótum, t.d. í garð þess sem hér talar, ef þetta lægi fyrir og menn horfðust í augu við það hvers vegna svo er komið sem komið er í þessari sorglegu braskvæðingu sparisjóðakerfisins sem það lenti að stærstum hluta í og varð því að falli.

Það er ánægjulegt að hér er samhljómur meðal þingmanna, mér heyrist flestra ef ekki allra, um að það væri æskilegt að tryggja til frambúðar sparisjóði í landinu sem hluta af almennri bankaþjónustu. Ég heyrði engan tala gegn því. Hitt er óljósara, og að einhverju leyti ljóst að skiptar skoðanir eru um hvort til komi greina, að ríkið leggi meira skattfé í að tryggja að svo verði. Ég heyrði í sjálfu sér engan þingmann leggja til að við ættum hreinlega að ráðstafa úr ríkissjóði meiri peningum í að bjarga bágstöddum sparisjóðum. Þeir fagaðilar sem um málið hafa fjallað hafa ekki mælt með því en eftir stendur að mikill vilji er til þess.

Nú hafa sem betur fer áhugasamir aðilar, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar í þeim byggðum þar sem enn eru starfandi sparisjóðir, reynt að mynda samtök eða safna liði um að standa að baki því sem eftir er af kerfinu. Það tel ég geysilega mikilvægt. Það var meðal annars til þess sem ég vísaði um þá vinnu sem nú stendur yfir og er að fara í gang um endurskoðun á lagaumhverfinu og leita leiða til þess að draga úr nauðsynlegum kostnaði vegna miðlaraþjónustu sparisjóðanna því að slíkt er forsenda þess að hægt sé að sjá trausta framtíð þarna fyrir sér.

Það er enn (Forseti hringir.) von mín að hægt verði að tryggja framtíð sparisjóðanna. Til þess að taka af allan vafa í þeim efnum vil ég segja að sá sem hér talar er jafnáhugasamur um það og hann hefur lengi verið að reyna, ef það er mögulegt, að gera það þótt hann hafi á köflum ekki fengið miklar þakkir fyrir viðleitni sína í þeim efnum.