140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

staða sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé að verða æ betur ljóst, sem betur fer, að samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka hefur verið árangursríkt [Hlátur í þingsal.] og kemur fram nær daglega að staða Íslands fer batnandi. Við erum með hagvöxt og batnandi lánshæfismat, endurtryggingar eru að taka Ísland aftur í viðskipti og aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum er að opnast þannig að þetta stjórnarsamstarf hefur skilað miklum árangri. Þótt ýmislegt hafi gengið á í því, eins og gjarnan gerist á bestu heimilum, hefur það verið árangursríkt.

Ég hef fulla trú á því að við í stjórnarflokkunum munum leysa úr þeim núningi sem verið hefur uppi um nokkur mál undanfarna daga. Það er vissulega rétt að meðferð sjávarútvegsmálanna hefur sætt gagnrýni. Það eru okkur vonbrigði að við skulum ekki vera komin lengra í þeim efnum. Það er ekki við neinn einn að sakast í þeim efnum, en vissulega hefur sjávarútvegsráðherra forræði á því máli. Það hefur hann enn, það er misskilningur að þó að stjórnarflokkar setji ráðherra til verka í málaflokki hafi það eitthvað með forræði málaflokka í skilningi laga um Stjórnarráð Íslands að gera. Það er ekki svo.

Það er mikilvægt að núverandi stjórnarflokkar stilli betur saman strengi sína eigi okkur að auðnast á þessum þingvetri að leiða þetta stóra og mikla mál í farsæla höfn, það að ná fram nauðsynlegum breytingum á stjórnkerfi fiskveiða. Það ætlum við okkur að gera því að það er, til viðbótar efnahagslegri endurreisn, eitt af stóru málunum sem á eftir að ljúka og leiða í farsæla höfn á þessu kjörtímabili.

Þetta er samsteypustjórn, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi skilning á. Hún byggir á stjórnarsáttmálanum, stjórnarflokkarnir leggja til hvor sinn ráðherrahópinn í þessa samsteypustjórn, þingflokkar viðkomandi stjórnarflokka bera ábyrgð á þeim og þeir starfa í þeirra umboði. Það er þó ljóst að allir sem settir eru til slíkra trúnaðarstarfa þurfa að njóta fyllsta trausts félaga sinna. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: En hvað með þingflokksformanninn?)