140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alvenjulegt, a.m.k. hefur það verið svo í þessari ríkisstjórn, að menn skipuleggi vinnuna þannig að tilteknir ráðherrar taki að sér tiltekin verkefni. [Frammíköll í þingsal.] Slíkar nefndir geta að sjálfsögðu verið óformlegar jafnt sem formlegar og þannig eru starfandi hópar ráðherra, tveir til fjórir, í ákveðnum málaflokkum innan þessarar ríkisstjórnar sem fara með þá. Til dæmis get ég nefnt gott samstarf umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra í sambandi við allt sem snýr að rammaáætlun. Auðvitað hefur ríkisstjórn fullt svigrúm og frelsi til að skipuleggja verk sín með þessum hætti og setja fólk til starfa eftir því sem henni sýnist, hvort sem það er gert með formlegum hætti á grundvelli nýrra ákvæða laga um Stjórnarráðið eða (Gripið fram í.) óformlegri vinnunefnd, vinnuhópi eða starfshópi eða hvað menn vilja kalla það.

Það eru aðallega verkin sem skipta máli hér. Ef hv. þingmenn er uppteknari af nákvæmlega formalismanum í þessu mega þeir svo sem vera það mín vegna. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að ná fram árangri í þessu máli, ná fram niðurstöðu í þessu máli og til þess höfum við úr þessu takmarkaðan tíma.