140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[15:18]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ákvörðun hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar þess efnis að synja umsókn kínverskra fjárfesta um undanþágu frá lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, hefur verið mjög til umfjöllunar síðustu sólarhringa. Viðbrögð við þessari ákvörðun hafa verið mjög sterk, bæði jákvæð og neikvæð.

Ég er einn þeirra sem telja að ráðherra hafi tekið rökrétta ákvörðun út frá þeim lagaramma sem í gildi er. Ég lít reyndar svo á að land sé einhver mikilvægasta auðlind þessarar þjóðar og fullt tilefni sé til þess að við förum okkur hægt í að taka stefnumótandi ákvarðanir um að selja land úr landi, ef svo má segja. Hins vegar er mjög mikilvægt að við skoðum vel, þegar málefni eins og þessi koma upp, allar þær leiðir sem geta tryggt að sú fjárfesting í innviðum okkar atvinnulífs sem þarna var undir geti náð fram að ganga. Hafa komið fram á síðustu sólarhringum hugmyndir, til að mynda frá hæstv. iðnaðarráðherra, um að hægt væri að nýta lögin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga sem fela meðal annars í sér að fjárfestar geti leitað eftir fjárfestingarsamningi um tiltekin verkefni. En forsenda þess að slík leið yrði fær er sú að fjárfestar gætu gert leigusamning við landeigendur um afnotarétt af því landi sem hér um ræðir. Kemur þá aftur til kasta hæstv. innanríkisráðherra, en í lögunum frá 1966 er ekki aðeins talað um eignarrétt fasteigna heldur sömuleiðis afnotarétt.

Spurning mín til ráðherra er þessi: Hver er afstaða hæstv. innanríkisráðherra til þess að umræddir fjárfestar fái heimild til að gera leigusamning við landeigendur í þeim tilgangi að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á umræddu svæði?