140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar hann sagði að það væru aðallega verkin sem skiptu máli þegar við ræðum það í samhengi við þær hugmyndir hans um sérstakan kolefnisskatt. Eins og hér hefur verið farið yfir hefðu afleiðingarnar verið herfilegar. Frestað var útboðum á stórum verkefnum á Suðurnesjum um helgina vegna þessara hugmynda hans eða ráðuneytis hans. Fram hefur komið að samráð við hagsmunaaðila var ekkert, það hófst í dag, nokkrum dögum eftir að málið kom á dagskrá.

Nú heyrum við að hæstv. fjármálaráðherra er á harðahlaupum undan eigin verkum. Það er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin þarf að taka til fótanna þegar hún þarf að draga til baka þá vitleysu sem hún hefur lagt á borðið. Hæstv. ráðherra er gerður hér í annað skipti afturreka með sambærilega skattlagningu og var árið 2009. Í annað skipti þarf hann að fara á harðahlaupum undan eigin hugmyndum og verkum.

Þetta hefur auðvitað skaðað íslenskt samfélag, þetta hefur skaðað orðspor okkar á erlendum vettvangi nú þegar og það er spurning um hvenær og hvernig okkur tekst að vinna það orðspor til baka. Það verður væntanlega ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar eða verkefna hennar.

Formaður atvinnuveganefndar sagði um helgina að þetta væru mistök og lagði fram kröfu um að hæstv. ráðherra bæðist afsökunar á embættisafglöpum sínum. Ég leita eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hann muni fara þarna að beiðni hv. formanns atvinnuveganefndar. Ég vil fá að vita: Mun ráðherra telja í ljósi yfirlýsingar sem hann gefur hér að þetta verði til þess að þau verkefni sem eru á borðinu muni verða að veruleika? Munu verkefnin halda áfram? Hefur hann fengið staðfestingu á því frá til dæmis kísilfyrirtækjunum, sem ætluðu meðal annars að fara í útboð um helgina, að þau muni halda áfram með áform sín?

Við ráðherrann vil ég segja, hann talar um að höggva alltaf í sama knérunn, að hækka skatta á almenning, að það sé að höggva í sama knérunn. Það er þannig, hæstv. ráðherra, að þú hækkar ekki skatta almennings sem hefur ekki atvinnu. (Forseti hringir.) Þú borgar þeim atvinnuleysisbætur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta hér í ræðustóli.)