140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur áhyggjur af orðspori Íslands má hugga hann með því að það hefur auðvitað lagast verulega frá því að það hrundi til grunna árið 2008. Það mælist, það orðspor, í gegnum batnandi stöðu landsins, styrkt lánshæfi og á flestan hátt betri stöðu en margir bjuggust við á sama tíma og því miður margir eiga í vaxandi erfiðleikum. Ekki þarf um það að deila að orðspor Íslands hefur farið ört batnandi núna síðustu missirin, einkum í tíð þessarar ríkisstjórnar — nema það sé stjórnarandstöðunni sérstaklega að þakka að orðspor Íslands hafi batnað út á við. (Gripið fram í: Icesave!)

Árið 2009 fórum við í ýmsar tekjuöflunaraðgerðir. Þær voru óhjákvæmilegar. Auðvitað hefur mikill hluti þeirra byrða lent á almenningi, þeirra sem hærri hafa launin, fjármagnstekjur hafa og meiri eiga eignirnar, en við höfum líka orðið að leggja byrðar á atvinnulífið, t.d. í gegnum hækkun tryggingagjalds vegna aukins atvinnuleysis. Síðan höfum við lagt á umhverfis- og auðlindagjöld og höfum þannig reynt að dreifa byrðunum af sanngirni.

Mér finnst ekki eiga að ræða þessi mál þannig að einhver einn tiltekinn geiri íslensks atvinnulífs, af því að hann er hjartfólginn ákveðnum þingmönnum, stóriðjan, sé algjörlega undanskilinn. Það á ekki að vera þannig, en að sjálfsögðu þarf að fara þar fram af hófsemi og gæta þess að skaða ekki möguleika nýrra fjárfestingarverkefna og að landið sé vel samkeppnisfært. Það munum við tryggja.

Það höfum við meðal annars gert með fjárfestingarsamningum við mörg af þeim nýju verkefnum sem hv. þingmaður nefndi, og fjármálaráðuneytið hefur ekki látið sitt eftir liggja í því að klára þá vinnu þar sem þeim eru tryggð ákveðin starfsskilyrði gagnvart mikilvægustu skattstofnum í tiltekinn aðlögunartíma.

Við munum, hér eftir sem hingað til, leita leiða til að tryggja að svo verði og það verði ekki þrándur í götu þess að menn afli sér fjárfestingarfjár til þeirra verkefna. (Forseti hringir.) Ég hef góða trú á því að nokkur þeirra fari af stað á fullri ferð á næsta ári.