140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Núna um miðjan október áttu sér stað nokkuð harðir jarðskjálftar sem komu fram vegna niðurdælingar Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði þar sem vatni var dælt niður vegna jarðhitaframkvæmda við Hellisheiðarvirkjun. Í framhaldinu kom upp óvissa um það hvers það væri að bæta hugsanlegt tjón á mannvirkjum. Það má nefnilega vera að ekki þurfi jarðskjálfta af öflugustu gerð til að kalla fram slíkt tjón. Þarna eru mögulega mannvirki og byggingar sem sködduðust í jarðskjálftunum miklu í maí 2008, en alvarlegast af öllu er ef einhver vafi leikur á um það hvernig tjón af völdum jarðskjálfta sam sagðir eru af manna völdum vegna niðurdælingar er bætt. Við getum túlkað slíkt tjón á ýmsa vegu því að sérfræðingar halda því fram að þessir skjálftar séu í jörðinni og komi fram seinna og öðruvísi ef þeir eru ekki framkallaðir en alltént eru þeir kallaðir fram á þessum tíma vegna niðurdælingarinnar. Á því leikur enginn vafi.

Viðlagatrygging sem alla jafna bætir tjón af völdum jarðskjálfta vísaði þessu frá sér, sagðist ekki hafa lagaheimild til að bæta tjón sem er tilkomið af jarðskjálftum af manna völdum, og tryggingafélag Orkuveitunnar í þessu tilfelli vísaði því einnig frá sér og yfir á Viðlagatryggingu. Þessi deila veldur óvissu sem er algjörlega óþolandi. Hún hefur verið staðfest á fundi bæjarstjóra Hveragerðis og framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar. Þarna vísar hver á annan og íbúar á þessum svæðum og öðrum — auðvitað geta svona manngerðir jarðskjálftar komið upp annars staðar ef slíkar framkvæmdir fara fram þar — mega búa við þá óvissu að ekki sé á hreinu hver bætir hugsanlegt tjón á eigum þeirra, og öðrum mannvirkjum að sjálfsögðu. Það eru algjör grundvallarréttindi hvers manns að öryggi ríki um tryggingu eigna hans, mögulegt tjón á heimili, innbúi og öðru, hvort sem er af manna völdum eða náttúrunnar. Þess vegna höfum við komið okkur upp nokkuð öflugu tryggingakerfi, hvort sem er Viðlagatrygging út af náttúruhamförum eða tryggingafélögin út af öðru tjóni.

Náist ekki að skýra hvers er að bæta tjónið og Viðlagatrygging og tryggingafélögin halda áfram að vísa hvert á annað og íbúarnir búa við þessa óvissu verður að sjálfsögðu að breyta lögum þannig að það sé á hreinu að það sé annaðhvort staðfest hlutverk Viðlagatryggingar að bæta tjónið, þótt það sé tilkomið af völdum jarðskjálfta sem eru framkallaðir með niðurdælingu, eða tryggingafélags viðkomandi orkufyrirtækis, Orkuveitu Reykjavíkur í þessu tilfelli. Þessari óvissu er mjög mikilvægt að eyða. Löggjafinn verður að standa skil á þessu máli og komi ekki fram tillaga um annað verður löggjafinn að grípa inn í, breyta lögum og eyða óvissunni. Þess vegna beini ég fyrirspurn minni til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem fer með þennan málaflokk:

Hvernig er staðan?