140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og eins svör ráðherra. Mér finnst að við svör ráðherra verði óvissan eftir sem áður fyrir hendi því að er það ekki á hendi Viðlagatryggingar að taka á því tjóni sem verður af þessum jarðskjálftum. Fyrirspurnin lýtur að tjóni af manngerðum jarðskjálfta og óvissan mun snúast um það hvað er manngerður jarðskjálfti. Hvenær er hann af manna völdum og hvenær væri óumflýjanlegt að jarðskjálftinn yrði? Vísindaleg sönnunarbyrði leggst þá á þá sem sækja rétt út af tjóni sínu fyrir dómstólum og þurfa að sanna að þessi jarðskjálfti hefði hugsanlega orðið miklu minni og komið í smærri skömmtum vegna þessarar starfsemi, eins og hefur komið fram í umræðum, og hefði hugsanlega orðið miklu alvarlegri og miklu stærri ef hann hefði komið. Ég held að þarna sé enn fyrir hendi óvissa sem ég hvet hæstv. ráðherra til að fara betur yfir með Viðlagatryggingu.