140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. ráðherra valda mér miklum vonbrigðum. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á er óvissan og skaðinn enn fyrir hendi fyrir þá íbúa sem verða fyrir jarðskjálfta, hvort sem hann er manngerður eða ekki. Það er fáránlegt að ætla íbúum og húseigendum sem verða fyrir tjóni af þessum sökum að þurfa að þramma fyrir dómstóla og sýna fram á af hvers völdum jarðskjálftinn er. Jarðskjálfti er jarðskjálfti og það þarf að tryggja bætur með einhverjum hætti, þá alveg eins að Viðlagatrygging greiði þetta út og leiti síðan réttar síns gagnvart tjónvaldinum eins og ráðherra orðaði það.

Það er algjörlega óásættanlegt fyrir íbúa sem búa við þá óvissu að þeir þurfi að sækja rétt sinn (Forseti hringir.) með þessum hætti, sérstaklega í ljósi þess að Orkuveitan segist ekki einu sinni vera með neina manngerða skjálfta, þetta sé flýting á skjálftum sem hefðu komið hvort sem er. Hver ber þá skaðann?