140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

heiti Ríkisútvarpsins.

167. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér kemur reyndar ekki á óvart að Ríkisútvarpið heiti Ríkisútvarpið því að hvergi annars staðar er neitt annað nafn þess eða heiti að finna. Það er líka ljóst að fyrirtæki og stofnanir nota oft skammstöfun sér til auðkenningar og stundum verður sú skammstöfun sjálfu nafninu yfirsterkari. Ágætt dæmi um það er fyrirtækið ÁTVR sem reyndar heitir í munni manna almennt öðru nafni, nefnilega Ríkið. Ég held því miður að þetta mál hins vegar sýni varhugaverða og sérkennilega þróun í fyrirtækinu Ríkisútvarpinu ohf. eins og það heitir. Það hófst með einhvers konar samráði við auglýsingastofu í lok fyrra árs og lauk að held ég í mars á þessu ári, að tekið var upp í tengslum við breytingar á einkennismerki stofnunarinnar, sem ég hef enga athugasemd við, það að hún er aldrei nokkurn tímann kölluð sínu rétta nafni í sjálfri sér, heldur er alltaf notuð skammstöfunin og þá ekki þannig að taldir séu upp stafirnir heldur gert orð úr skammstöfuninni, sem auðvitað eru mörg dæmi um, en er hér frekar óheppileg, nefnilega RÚV. Það er ekki beygt, það er ekki frá RÚVI til RÚVS heldur er sagt „fréttir RÚV“ og „hér á RÚV“ þannig að þetta verður bæði ankannalegt og hálfkjánalegt. Það sem mig grunar er að að baki þessu liggi ekki hagkvæmnissjónarmið heldur bein stefnumótun af hálfu Ríkisútvarpsins að forðast einmitt að kenna sig við ríkið, að forðast eða koma sér hjá eins og hægt er, þótt ekki sé nema táknrænt, sínu almannaútvarpshlutverki og reka sig heldur eins og hvert annað fyrirtæki á markaði, sem þessi stofnun á ekki að vera. (Forseti hringir.) Af því stafi þessi nafnbreyting og undirbúningur hennar með aðstoð auglýsingaskrifstofu og aðkeyptra ráðgjafa.