140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

270. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hér er á dagskrá þessi fyrirspurn frá mér til hæstv. fjármálaráðherra:

Telur ráðherra eðlilegt að ráðast á næstunni í tvöföldun Hvalfjarðarganga með ríkisábyrgð á lánum til framkvæmdarinnar svipað og nú er í ráði um Vaðlaheiðargöng, samanber viðtal við stjórnarformann Spalar í Skessuhorni 9. nóvember síðastliðinn og ályktun bæjarstjórnar Akraness 25. október síðastliðinn? (Gripið fram í.)

Það er sjálfsagt að láta þessu fylgja orð Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar, og reyndar framkvæmdastjóra Faxaflóaganga sem er auðvitað (Gripið fram í.) skylt fyrirtæki má segja, því það á í Speli. Hann sagði meðal annars, með leyfi forseta, 9. nóvember í Skessuhorni:

„Augljóst er að í samanburði við önnur göng þar sem umferð er mun minni ætti tvöföldun Hvalfjarðarganga að vera í forgangi ef horft er til umferðaröryggismála. Rök standa til að um þessar mundir ætti að vera hægt að fá hagstæðari tilboð í gangagerðina heldur en að bíða í nokkur ár eftir því að vandann þurfi að leysa vegna brýnnar þarfar. Framkvæmd af þessari stærðargráðu,“ segir Gísli, „yrði vel þegin í kalt efnahagskerfi. Ef ríkið er tilbúið til að bera ábyrgð á lánum vegna Vaðlaheiðarganga, ætti það sama að eiga við um Hvalfjarðargöng, burt séð frá því hvort ný Hvalfjarðargöng verði fjármögnuð með vegtolli eða framlögum ríkisins.“

Við þetta er að bæta að ljóst er að ný Hvalfjarðargöng yrðu ekki byrði á ríkissjóði ef þau væru fjármögnuð með vegtolli. Það er alveg ljóst að þau mundu standa undir sér, en um það hafa verið efasemdir hvað varðar Vaðlaheiðargöng og er ekki alveg séð fyrir endann á því enn þá.

Menn kunna að spyrja: Er þetta ekki allt of dýrt? Getur ríkissjóður borið þetta? Því er til að svara að árið 2008 var reiknað með að slík tvöföldun kostaði u.þ.b. 7,5 milljarða. Það gætu verið, samkvæmt þumalputtamati sem ég hef orðið mér út um, kannski 9 eða 9,5 milljarðar núna. Eitthvað þarf síðan í vegaframkvæmdir báðum megin við, einkum sunnan við, þannig að þetta gætu kannski verið 10 eða 10,5 milljarðar sem er nokkurn veginn sama upphæð og Vaðlaheiðargöng kosta, þannig að við erum að tala um algjörlega svipaða framkvæmd.

Sá er munurinn á þessari framkvæmd og þeim framkvæmdum öðrum sem menn hafa talað um í samgöngum á suðvesturhorninu og í nágrenni þess, að hér er enginn vandi um fjármögnunina. Hún yrði að sjálfsögðu mjög lík og hinn fyrri áfangi Hvalfjarðarganga, þ.e. veggjöld. Á sama hátt og það hefur gengið mjög vel, þótt auðvitað séu sumir óánægðir með það mál, er að ætla að þetta gangi vel líka, enda er alltaf sá kostur fyrir hendi að fara aðra leið en það þarf að vera fyrir hendi í framkvæmdum af þessu tagi að mínu viti.