140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

270. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Já, ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að ástæða er til að þakka fyrrverandi samgönguráðherra, hæstv. fjármálaráðherra núverandi, fyrir þátt hans í gerð Hvalfjarðarganga. En hann fer ekki alveg rétt með því það voru ekki sömu efasemdir um Hvalfjarðargöng á sínum tíma og nú um Vaðlaheiðargöng að því ég man. Ég var líka uppi á þessum tímum og orðinn tvævetur og rúmlega það. Annars vegar voru til þeir menn sem töldu göngin ekki tæknilega gerleg, þau mundu hrynja saman eða þarna mundi verða stórslys. Það var nú sem betur fer kveðið niður og hefur ekki reynst rétt. Hins vegar voru þeir, og var nokkuð fjölmennur hópur, sem töldu að göngin væru ekki tímabær og ekki aðkallandi. Ýmsar framkvæmdir, sérstaklega á landsbyggðinni, væru miklu meira aðkallandi en þessi göng sem væru einhver dilla úr Reykvíkingum og einkum Skagamönnum. Ég verð að segja sannleikans vegna og sögunnar að þingmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon var á þeim tíma framan af nokkuð eindregið þessarar skoðunar. Sem betur fer kynnti hann sér málið betur í samráði við ágæta menn, og sem ráðherra stóð hann sig vel í þessu. Ef ég man rétt stendur nafn hans þar við annan hvorn munnann.

Það er eins með Vaðlaheiðargöng. Ýmsir telja þau ekki tímabær og ekki aðkallandi, en þó aðallega ekki víst að þau standi undir sér en enginn efaðist um þá hlið mála að því er ég man, það gæti verið rangt, með Hvalfjarðargöngin. Nú þegar okkur vantar nánast framkvæmdir til að fara í og ég get tekið undir með mönnum sem kalla eftir þeim, og Vaðlaheiðargöng eru að verða að veruleika með þeim hætti sem menn hafa samþykkt hér á þingi, þá tel ég að þetta komi vel til greina. Ég hvet fjármálaráðherra og aðra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni til að kynna sér viðhorf Gísla Gíslasonar og félaga (Forseti hringir.) hans í þessum efnum.