140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Drekasvæði.

241. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. verðandi olíumálaráðherra Íslands fyrir hennar góðu svör. Það er ánægjulegt að heyra að málið er í farvegi, góðum farvegi.

Mig langar í seinni ræðu minni að koma aðeins inn á það sem hæstv. ráðherra talaði um, þ.e. samstarf Íslendinga og Norðmanna í þessum efnum, sem að mínu mati er lykilatriði í sókn þessa máls vegna þess að Norðmenn búa vitaskuld yfir miklu meiri þekkingu á þessum málum heldur en nokkurn tímann Íslendingar, með fullri virðingu fyrir þeim. Norðmenn hafa verið í fararbroddi við nýtingu olíu af hafsbotni um margra áratuga skeið og fullkomlega eðlilegt að leita til þeirra í auknum mæli um samstarf að þessu leyti.

Ég velti fyrir mér, frú forseti, hvort þetta samstarf og frekara samstarf við Norðmenn muni setja okkur einhverjar skorður hvað varðar staðsetningu á þjónustumiðstöð svo dæmi sé tekið. Hvort við höfum sjálfdæmi um að setja hana niður hér á landi eða hvort Norðmenn vilji hlutast eitthvað til um það í ljósi þess samstarfs sem við þurfum á að halda við þá um efnið.

Eins langar mig, frú forseti, að leita eftir því hjá hæstv. ráðherra hvað felist í þessum janúarfundi sem ráðherra nefndi þar sem við ætlum að kanna frekar samstarfsvilja Norðmanna með okkur í þessu efni. Hvað er nákvæmlega á dagskrá þess fundar og hvaða fréttir sér hæstv. ráðherra að sá fundur muni bera með sér?

Alltént er þetta mál í farvegi. Það er vel. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Ég tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra að það er afskaplega mikilvægt að við missum ekki þessa þjónustumiðstöð úr landi og hún verði staðsett sem næst (Forseti hringir.) Drekasvæðinu sjálfu á Norðausturlandi.