140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

hækkun fargjalda Herjólfs.

234. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þann 1. nóvember síðastliðinn hækkaði gjaldskrá Herjólfs um 15%. Undanfarin fimm ár, eða frá áramótum 2006/2007, hafa fargjöld milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar hækkað um u.þ.b. 70%. Vissulega eru fargjöld milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar lægri, en því miður stefnir í að Þorlákshöfn verði aðalhöfn Herjólfs í vetur ef fram heldur sem horfir. Fullt verð fyrir fjölskylduna, tvo fullorðna og tvö börn, með bíl og klefa er rúmlega 30 þús. kr. þegar Eyjamenn leyfa sér þann lúxus að fara að heiman. Ef einhverjum þeirra dytti hins vegar í hug að fara t.d. að heiman um hverja helgi þyrfti að snara út litlum 120 þús. kr. og munar flesta um minna. Jafnvel með afsláttarkorti slagar kostnaðurinn við Herjólfsferðina hátt í 90 þús. kr. fyrir þessa fjölskyldu.

Það er ekki bara verðskráin sem setur strik í reikninginn hjá því fólki sem þarf af einhverjum sökum að ferðast til og frá Vestmannaeyjum, t.d. til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða sækja í stjórnsýsluna sem er meira og minna staðsett á höfuðborgarsvæðinu, heldur er líka óvissa um áfangastað. Þannig er undir hælinn lagt hvort siglt er til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar allt eftir því hvaðan vindur blæs eða hvort dæluskipið hefur verið í sjófæru ástandi dagana á undan. Þar sem mismunandi gjaldskrá er í gildi fyrir Landeyjar annars vegar og Þorlákshöfn hins vegar veit maður aldrei fyrir fram hvað ferðin mun kosta og munar þar 350% fyrir þá sem þarna væru á ferð.

Þar fyrir utan hafa stjórnvöld hætt niðurgreiðslum á flugfargjöldum milli lands og Eyja. Þrátt fyrir frábæra þjónustu Flugfélagsins Arna er Herjólfur enn eini raunhæfi ferðamátinn til og frá Vestmannaeyjum fyrir fjölskyldufólk, einkum ef ætlunin er að taka bílinn með. Því hafa hækkanir á fargjöldum um 70% á undanförnum fimm árum haft mikil áhrif á lífsgæði fólks í Vestmannaeyjum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann rökstyður þessar hækkanir á fargjöldum Herjólfs og hver afstaða hans er til hækkananna og áhrifa þeirra á lífsgæði Eyjamanna.