140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

hækkun fargjalda Herjólfs.

234. mál
[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segist sakna þess að ég svari ekki spurningum. Það geri ég. Ég vísa einfaldlega í hækkanir sem orðið hafa á rekstrarkostnaði vegna eldsneytis, vegna launa og síðan vísa ég í niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Ég er einfaldlega að segja að ég axli ábyrgð á afleiðingum gjörða minna með því að samþykkja fjárlög sem hafa haft þetta í för með sér. Þetta er ástæðan fyrir því að menn hafa talið sig nauðbeygða til þess að hækka gjaldskrána. Það er ekkert gleðiefni. Ég tek alveg undir þær ábendingar sem hér koma fram. Þegar vísað er í kostnað fjölskyldna við að fara á milli lands og Eyja er hann tilfinnanlegur til lengri tíma litið ef horft er á tilkostnaðinn sem fjölskyldan í heild sinni ber.

Ég tek líka undir það sem fram kemur í máli þeirra tveggja hv. þingmanna sem hafa tjáð sig, að þetta er ekki bara spurning um tilkostnað heldur líka óöryggið sem fylgir stopulum ferðum á milli vegna ytri aðstæðna, sandburðar og sjógangs. Þetta er allt saman nokkuð sem við vonumst til að komist í markvissari farveg með nýrri ferju sem allra fyrst og að þessi mál komist í fastari skorður en verið hefur.

Við eigum eftir að fjalla nánar um þetta í fyrirspurnum hér á eftir og þá kem ég nánar að þeim þáttum.