140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

rannsókn á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.

271. mál
[17:06]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá ósk að gerð verði úttekt á hönnun og aðstæðum við Landeyjahöfn, ekki með tilliti til þess sem var gert því að hönnunin var geipilega vel unnin að öllu leyti en náttúruhamfarir breyttu aðstæðum. Það er kannski út frá því sem þarf að skoða stöðuna. Það sem liggur á að gera er að klára dæmið, hanna dælingu frá Landeyjahöfn, frá hafnarmynninu. Það er ekki neitt því til fyrirstöðu að gera það strax. Botndæling 600 metra út kostar 250–300 milljónir og það borgar sig að fara í það. Tölur sem voru á kreiki um milljarð eru rangar. Þetta er það sem hægt er að gera með stuttum fyrirvara og þarf að gera.

Við erum að vinna að því að leggja fram tillögu um nýja ferju sem ætti að vera komin í gagnið innan tveggja ára og vonandi tekur hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) vel í það því að ekkert er því til fyrirstöðu.