140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

rannsókn á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.

271. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, að mikilvægt er að klára verkið. Það var ekki nóg að byggja einungis nýja höfn, það stóð alltaf til að ný ferja kæmi sem hentaði til siglinga við þessar aðstæður. Ég fagna því að það sé allt saman í undirbúningi.

Það sem ég hef áhyggjur af er millibilsástandið, tíminn sem líður á milli þeirrar stöðu sem við erum í núna og þangað til ný ferja kemst í gagnið. Þrátt fyrir að allar áætlanir gengju eins og best verður á kosið og við gætum boðið þetta út í dag erum við að tala um að minnsta kosti tvö ár. Það þarf að huga að því með hvaða hætti er hægt að koma til móts við íbúa Vestmannaeyja þangað til. Mætti endurskoða ríkisstyrk á fluginu? Mætti fá skip í millitíðinni? Hvaða vinnu hefur hæstv. ráðherra lagt í það? Við vitum (Forseti hringir.) hvernig á að leysa málið til framtíðar en það er mikilvægt að leysa það líka núna í millibilsástandinu.