140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

rannsókn á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.

271. mál
[17:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér líkar vel áherslur hv. þingmanns og frummælanda í þessari umræðu, Eyglóar Harðardóttur, svo og hv. þm. Árna Johnsens. Það er mikilvægt að þeir sem hafa komið að þessum málum njóti sannmælis. Við erum að fást við mjög erfiðar aðstæður og menn hafa reynt að taka mið af þeim breytingum sem hafa orðið á duttlungum náttúrunnar og er að takast bærilega en ekki þó þannig að við teljum það viðunandi.

Við erum sammála um að það er mikilvægt að fá nýja ferju hið allra fyrsta. Ef við eygjum það, fáum það sett fast niður hvenær það gæti orðið, er að ráðast að hinum vandanum sem er þetta erfiða millibilsástand. Við höfum núna síðast í morgun í ráðuneytinu verið að ræða valkosti í þeim efnum sem einnig hafa verið ræddir í samráðshópnum sem ég vísaði til áður og vonast ég til að eiga fund með fulltrúum þaðan, eins og ég sagði áðan, í vikunni. Ég vil ekki tíunda þessa valkosti fyrr en ég heyri sjónarmið, sérstaklega og ekki síst Vestmannaeyinga, formanns samráðshópsins, Elliða Vignissonar, og Guðlaugs Friðþórssonar sem einnig á sæti í þessum hópi. Við erum að fara yfir þetta og viljum komast að niðurstöðu hið allra fyrsta.

En við skulum ekki gleyma því að verkefnið eða vandamálið hefur verið þess eðlis að það hefur krafist þess að við gæfum okkur tíma til að skoða hvernig náttúruöflin leika okkur í þessu erfiða viðfangsefni.