140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

vegagerð á Vestfjarðavegi.

280. mál
[17:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Kristján Möller, er mjög nákvæmur maður og vill nákvæm svör, sundurliðuð, sem kannski hefði verið heppilegra að setja fram í skriflegu svari. En hann er nákvæmur maður að öðru leyti, hann spyr hvaða leiðir „komu“ til greina en ekki „koma“ til greina. Þessi litli stafur hefur afgerandi þýðingu, annars vegar u og hins vegar a, vegna þess að það er munur þarna á.

Ég ætla þá að vinda mér í svörin.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hver er uppreiknuð kostnaðaráætlun vegaframkvæmda á Vestfjarðavegi á: a. öllum þeim kostum sem komu til greina í Gufudalssveit?“

Kostur A, vegur á núverandi Reykhólasveitarveg út á Stað yfir mynni Þorskafjarðar yfir á Skálanes, 11 milljarðar kr.

Tekið skal fram að ekki er innifalinn kostnaður við endurgerð Reykhólasveitarvegar sem fara þyrfti fram ef vegurinn verður gerður að hluta Vestfjarðavegar. Að auki skal tekið fram að þessi kostur er um 6 kílómetra lenging miðað við til dæmis kost I hér að neðan.

Kostur B1, þ.e. vegur yfir Þorskafjörð ofan Teigsskógs yfir Djúpafjörð og Gufufjörð, 6,1 milljarður kr. Þarna skiptir máli ef við erum að tala í þátíð um valkosti sem komu til greina.

Kostur D, vegur yfir Þorskafjörð, yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls og yfir innanverðan Gufufjörð, 4,9 milljarðar kr. Í þessum kosti er aðeins einn fjallvegur því að gerður yrði nýr vegur yfir Ódrjúgsháls með 90 kílómetra hönnunarhraða sem mundi ekki teljast til fjallvega.

Kostur D1, vegur yfir Þorskafjörð, undir Hjallaháls í jarðgöngum yfir Ódrjúgsháls og yfir innanverðan Gufufjörð, 9,2 milljarðar kr. Í þessum kosti er enginn fjallvegur því að gerður yrði nýr vegur yfir Ódrjúgsháls með 90 kílómetra hönnunarhraða sem mundi ekki teljast til fjallvega.

Kostur H, vegur yfir Þorskafjörð, undir Hjallaháls í jarðgöngum út Djúpafjörð austanverðan og yfir Djúpafjörð og Gufufjörð, 9,6 milljarðar kr.

Kostur I, vegur út Þorskafjörð austanverðan, yfir Þorskafjörð innan Hallsteinsness og yfir Djúpafjörð og Gufufjörð, 7,1 milljarður kr. Verðlag í september 2011. Um er að ræða frumáætlanir kosta sem verða skoðaðir nánar í umhverfismati á næstunni.

Í b-lið er spurt um kaflann frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði. Ég vísa til þess að þarna eru tilteknar leiðir sem, meðan ég gegni þessu embætti, eru ekki á vinnsluborði og þá er ég að vísa í svokallaða Teigsskógsleið. Ég er að vísa núna í kaflann frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði og hér er í aðalatriðum um tvo kosti að ræða, veg yfir Mjóafjörð og Kjálkafjörð og veg fyrir firðina. Áætlaður kostnaður við þessa kosti eru eftirfarandi:

Vegur yfir Mjóafjörð og Kjálkafjörð, 3,2 milljarðar kr.

Vegur fyrir Mjóafjörð og Kjálkafjörð, 2,8 milljarðar kr. Verðlag í september 2011.

Í c-lið er spurt um Dynjandisheiði. Vegagerðin vinnur að athugunum vegna endurgerðar vegarins yfir Dynjandisheiði og liggur því ekki nein áreiðanleg kostnaðaráætlun fyrir. Talið er að stærðargráða kostnaðar gæti verið um 4,5 milljarðar kr. Verðlag í september 2011.

Í d-lið er spurt um Dýrafjarðargöng. Áætlaður kostnaður við gerð Dýrafjarðarganga er 7,3 milljarðar kr. Verðlag í september 2011.

Í öðru lagi er spurt: „Hver er áætlaður heildarkostnaður við jarðgöng undir a) Hjallaháls og b) Ódrjúgsháls? Hvað yrðu þau göng löng og í hvað hæð yrðu munnar þeirra?“

Hjallaháls. Göng undir Hjallaháls hafa ekki verið skoðuð nákvæmlega en það verður verkefni í tengslum við nýtt umhverfismat leiða á svæðinu. Lausleg skoðun bendir til að þau gætu orðið um 3,5 kílómetra löng, hæð munna í Þorskafirði gæti verið 65 metrar og hæð munna í Djúpafirði um 80 metrar. Kostnaður við göngin gæti numið um 5 milljörðum kr. Verðlag í september 2011.

Ódrjúgsháls. Vegagerðin hefur ekki skoðað möguleika á jarðgöngum undir Ódrjúgsháls, enda verður hálsinn ekki talinn til fjallvega þegar og ef lagður verður nýr vegur yfir hálsinn. Hannaður hefur verið vegur með 90 kílómetra hönnunarhraða yfir hálsinn og lítur Vegagerðin svo á að þar með sé kominn góður láglendisvegur. Til samanburðar er bent á að Suðurstrandarvegur fer á kafla upp í sömu hæð og nýr vegur yfir Ódrjúgsháls.

Í þriðja lagi er spurt, og ég er að verða búinn: „Hvaða aðrar leiðir en þær sem kannaðar hafa verið koma til greina við lagningu láglendisvegar í Gufudalssveit og hver er kostnaður við þær?“

Vegagerðin lítur svo á, (Forseti hringir.) og ég er að vísa í upplýsingar frá Vegagerðinni almennt, að um tæmandi upptalningu sé að ræða hér að framan.