140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

vegagerð á Vestfjarðavegi.

280. mál
[17:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og líka svör hæstv. ráðherra. Þótt ég sé sæmilega staðkunnugur á þessum slóðum átti ég fullt í fangi með að átta mig alveg á þessum tölum og því sem var verið að vísa þarna til en þó sýnist mér þegar verið er að bera saman kostina, þ.e. að fara með jarðgöng undir Hjallaháls og veg yfir Ódrjúgsháls, þá umdeildu d-leið, sýnist mér kostnaðarmunurinn vera rúmlega 3 milljarðar kr. Þá erum við auðvitað farin að átta okkur á stærðunum í þessum efnum. Ég er með þá óbreyttu skoðun að ég teldi d-leiðina skynsamlegasta kostinn í vegagerð á þessum slóðum, en ef menn fara hins vegar jarðgangaleiðina undir Hjallaháls og veginn yfir Ódrjúgsháls með þeim hugmyndum sem hæstv. ráðherra rakti erum við að greiða rúmlega 3 milljörðum meira fyrir það að fara ekki með veginn í gegnum Teigsskóg og með þeim þverunum sem því fylgja síðan.

Það eru síðan aðrir kostir sem eru líka áhugaverðir og ég hef sagt að þrátt fyrir að ég hafi þessa einörðu skoðun varðandi B-leiðina er ég tilbúinn að skoða aðra kosti sem leiða til þess að þessi leið verði láglendisleið (Forseti hringir.) en það er auðvitað óviðunandi að hugsa um þær hugmyndir sem áður voru uppi á borðum um Hálsaleiðina. Það vitum við öll sem höfum tekið þátt í þessari umræðu.