140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

vegagerð á Vestfjarðavegi.

280. mál
[17:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef áður gert grein fyrir því hvers vegna ég tel að Teigsskógarleiðin sé út af kortinu, einfaldlega vegna þess að ég held að það liggi meira en svo á þessum framkvæmdum. (Gripið fram í.) Síðan spyr hv. þm. Sigmundur Ernir um láglendisveg, hvort ég sé honum sammála um að það sé heppilegasti kosturinn. Nei, ég er ekki sammála því, ég hefði talið hálsaleiðina heppilegasta kostinn með tilliti til kostnaðar og hraða í framkvæmdum, en sú leið mætir gríðarlegri gagnrýni og andstöðu á Vestfjörðum þannig að ég tel hana hreinlega ekki færa. Ég hef áður sagt að það sé ekki kostur í stöðunni að gera það vegna þess að íbúarnir vilja það ekki. Þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, eins og hv. þingmaður og íbúar á þessu svæði vilja, að við skoðum láglendiskosti.

Þar finnst mér vera tvennt í stöðunni, það eru göng undir Hjallahálsinn og síðan er spurningin um þverun, sem líka mætir mikilli mótspyrnu. Þar erum við að tala um utarlega í Þorskafirði, og leið sem að sönnu er mjög dýr, eins og A-leiðin, að fara — (SER: 11 milljarða.) 11 milljarða — áframhald úr Reykhólasveitinni og alveg yfir í Skálanesið. Þar koma umhverfisverndarsjónarmið líka til sögunnar og þá vísa ég til þverunar fjarða og efasemda sem margir hafa um hana. Mér finnst mjög mikilvægt að taka þessa umræðu mjög vandlega vegna þess að þverun fjarða er ekki sama og þverun fjarða heldur. Þverun fjarða innarlega í fjörðunum er eitt, þverun fjarða utarlega með brúm með miklu hafi er annað. Við eigum (Forseti hringir.) að hafa opinn hugann gagnvart þessu og taka umræðu um þessa þætti.

Varðandi kostnaðartölurnar sá ég ekki betur en að B-leiðin væri 6,1 milljarður. Ég heyrði sjálfan mig ekki segja annað en það. (Forseti hringir.) Við erum hins vegar að tala um göng undir Hjallaháls fyrir 5 milljarða. Þessar tölur eru því á reiki í umræðunni núna er ég hræddur um.