140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Íslandskynning.

123. mál
[18:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra greinargóð svör. Ég ætla ekki að fara í einhvern skjallkór en verð, um leið og ég ítreka árnaðaróskir mínar með þriðja drenginn, að segja að það var súrt í broti að hafa hæstv. ráðherra ekki með í för. Það segi ég með fullri virðingu fyrir forverum hennar í embætti, en hún hefði einmitt verið sá ráðherra sem hefði haft dýpstu tengslin við þessa bókakaupstefnu, en það koma aðrar kaupstefnur og aðrar bókmenntakynningar eftir þennan dag — og þetta segi ég líka með fullri virðingu fyrir starfandi menntamálaráðherra en einhvern veginn var þetta mín tilfinning.

Ég er fegin að menn hafa kjark í það að halda áfram með verkefnið. Gerðar voru miklar kröfur til verkefnisins. Eins og hæstv. ráðherra gat réttilega um eru þetta ekki háar fjárhæðir í stóru myndinni varðandi kynningar á landinu en þetta eru háar fjárhæðir fyrir menningarhluta landsins. Við eigum að gera kröfur til okkar og við gerðum það og stóðumst þær. Ef halda á áfram með verkefnið sem slíkt verðum við áfram að gera þessar kröfur til okkar. Við fyrstu sýn virðist Bókmenntasjóðurinn rétta leiðin að fara, og ég fagna þeirri leið, en þá verðum við líka að gera þá kröfu til hans, eins og við höfum í rauninni gert í gegnum tíðina. Ég skora á ráðuneyti, rithöfunda og útgefendur að vinna jafn vel saman og menn eru að gera þessa dagana.

Ég hlakka líka til að fá frumvarpið til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem við munum fá þetta til frekari umfjöllunar.

Ég þakka ráðherra fyrir svörin og ítreka að þegar framlög berast áfram í svona verkefni þá gerum við þessar kröfur til okkar sjálfra, að það fari ekki í einhverja hít heldur að við setjum stefnuna á metnaðarfullan hátt eins og gert hefur verið með Frankfurtarverkefninu.