140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

ólöglegt niðurhal.

124. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þessar spurningar mínar, og reyndar sú næsta líka, einkennast kannski af því að ég fór til Frankfurt og hef verið í miklum samskiptum við rithöfunda og útgefendur hér heima. Ég hef líka fylgst með því sem er að gerast í skólasamfélaginu, forsvarsmenn nemendafélaga hafa meðal annars talað um námsefni, námskynningar, hvort við séum með úrelt form námsefnis, hvernig hægt sé að stíga skrefið inn í framtíðina eins og nemandi orðaði það í ágætri blaðagrein sem skrifuð var okkur til umhugsunar — ég er kannski ekki sammála öllu því sem þar var sagt. Það var reyndar forveri okkar beggja í starfi ármanns við Menntaskólann við Sund, það er ágætt að þetta komi þaðan.

Þetta fær mann til að hugsa hvað við séum að gera til að svara kalli tímans. Ég kem inn á það á eftir varðandi áhrif rafbókarinnar á skólann. Hér er fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra sem tengist ólöglegu niðurhali á tónlist, kvikmyndum og bókum.

Ég vil gjarnan inna ráðherra eftir því hvað hafi verið gert hér heima til að vinna gegn þessu. Það sem einkenndi umræðuna, m.a. í ræðum manna í Þýskalandi, var það hvernig stjórnmálamenn marka stefnuna í samvinnu við hina faglegu aðila til að vinna gegn þessu ólöglega niðurhali. Þarna býr að baki þrotlaus vinna, mikil sköpun sem einstaklingar verða á einhvern hátt að fá greitt fyrir. En á móti kemur að flokkur eins og Piratenpartei í Þýskalandi, sem fékk í síðustu kosningum í Berlín um 9% atkvæða, minnir mig, með stefnuskrá sem gengur út á það að allir geti hlaðið niður öllu efni sem hægt er að nálgast á netinu. Að einhverju leyti er það skiljanleg nálgun en um leið verður að draga þau mörk að þegar að baki býr mikil sköpun, mikil vinna, hugmyndir sem ákveðnir einstaklingar hafa fengið, þá hljóta menn að spyrja: Hvernig er hægt að stuðla að því að þessar hugmyndir verði áfram að veruleika, að fólk setjist niður og setji þær frá sér til að aðrir geti notið gegn hóflegu gjaldi? Það kann að vera að þessu sé mismunandi háttað á milli listgreina, þ.e. milli ritlistar, tónlistar og kvikmyndalistar, að það sé auðveldara að hala niður tónlist og kvikmyndalist núna umfram bækur en ég spái því líka að það sama muni gerast með bækurnar.

Það er mikilvægt í þessari hringiðu netsins — við búum við það og við skulum þá bara lifa með því — að búa til þannig umhverfi að það geti mætt þessum þörfum, þessari miklu eftirspurn á þessu sviði. Vil viljum fá að njóta og neyta en það verður þá líka einhver að vera áfram til hinum megin sem gefur okkur kost á að njóta og neyta og þá er ég að tala um þá sem eru að skapa hverju sinni.