140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

ólöglegt niðurhal.

124. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er mjög viðamikið efni og ég vil byrja á því að nefna nokkra hluti sem unnið hefur verið að í ráðuneyti mennta- og menningarmála í þessum efnum.

Fyrst ber að nefna endurskoðun höfundalaga. Svonefnd leiðarljós hafa verið kynnt í þeim efnum sem eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Þar segir meðal annars að efla þurfi virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið; að efla þurfi réttarúrræði fyrir rétthafa og þau þurfi að vera skilvirk og hafa forvarnagildi; að stuðla þurfi að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð, það tel ég lykilatriði í þessum efnum; að höfundalög eigi að stuðla að jafnræði milli rétthafa og notenda og að leiðbeiningar og fræðslan um höfundaréttinn sé mikilvæg fyrir rétthafa sem notendur.

Ég kynnti áætlun mína um heildarendurskoðun höfundalaga á fyrsta fundi höfundaréttarráðs sem var haldinn í október 2009. Þar var mælt fyrir um endurskoðun laganna í þremur áföngum og henni átti að vera lokið á árinu 2012. Fyrsti áfangi endurskoðunarinnar náði að verða að lögum á þinginu 2010. Þá voru tekin upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda sem ég fer kannski nánar út í hér á eftir. Mælt var fyrir um rétt höfundaréttarsamtaka til málshöfðunar og lögbannsaðgerða í nafni rétthafa en skortur hefur verið á slíkri heimild og hafði torveldað málsvörn gegn höfundaréttarbrotum sem tengjast ólöglegri skráardreifingu á netinu. Innleidd var regla úr Evróputilskipun nr. 29/2001, um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem eiga þátt í höfundaréttarbrotum á netinu. Þá er átt við að leggja megi lögbann á þjónustu fjarskiptafyrirtækis sem stuðlar að ólögmætri dreifingu höfundavarins efnis.

Endurskoðunin hefur hins vegar af ýmsum ástæðum tekið lengri tíma en ætlað var þannig að líklega mun henni ekki ljúka á árinu 2012 heldur nær árinu 2013 en að henni er unnið áfram á vegum ráðuneytisins.

Auk þessarar vinnu höfum við haft frumkvæði að því að leiða viðræður milli fjarskiptafyrirtækja og rétthafaverndaðs efnis. Á liðnu ári var að finnskri fyrirmynd efnt til tveggja fagfunda eins og þeir kallast, samtals innan geirans, með þátttöku samtaka listamanna, höfundaréttarsamtaka, fjarskiptafyrirtækja og fleiri. Markmið fundanna var að leiða þessa aðila saman til opinna skoðanaskipta þeirra á milli og finna leið til að auka framboð af menningarefni á netinu sem notendur gætu nálgast með auðveldum og löglegum hætti. Þetta var mjög áhugavert því eins og hv. þingmaður nefndi þá eru heilar stjórnmálahreyfingar í samtímanum stofnaðar í kringum það að opna fyrir allan aðgang að þessu efni. Við getum velt fyrir okkur hugmyndafræðinni á bak við það, hún snýst kannski um það að öll þekking og öll menning eigi að vera aðgengileg öllum. Þetta hefur ýtt undir það, reynslan hefur sýnt það, að viðskiptaaðferðir til að nálgast efni á löglegan hátt reynast torveldari og vanþróaðri en þær aðferðir sem eru notaðar til að sækja ólöglega. Það virðist vera auðveldara tæknilega að sækja sér efni ólöglega en löglega. Til að mynda skortir mikið á það hér á landi að almenningi standi til boða framboð af löglegu efni eins og notendum austan og vestan hafs. Stórar erlendar efnisveitur, eins og iTunes, Spotify og Voddler, hafa ekki sýnt því áhuga að bjóða þjónustu til íslenskra notenda en þróun á sviði rafbóka, af því að hv. þingmaður ætlar að ræða það á eftir, er hins vegar athyglisverð.

Um þessar mundir eru Rithöfundasambandið og Félag íslenskra bókaútgefenda að ganga frá samningum sín á milli um greiðslur fyrir rafbækur. Í þeim geira telja menn að hægt sé, með tilteknum tæknilegum ráðstöfunum, að komast hjá ólögmætri notkun á bókmenntum sem gefnar eru út rafrænt.

Á þessum fagfundum beindi ráðuneytið þeim tilmælum til Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, til Stefs og til fjarskiptafyrirtækja að halda áfram viðræðum sínum sem þau og gerðu. Þær leiddu til sameiginlegrar bókunar þessara aðila, sem var gerð 30. maí 2011, þar sem er skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að heimilt verði að loka fyrir aðgang að tilteknum vefsíðum sem teljast uppspretta ólöglegrar dreifingar höfundavarins efnis. Í öðru lagi er óskað eftir breytingu á höfundalögum um heimild til afritunar efnis til einkanota og í þriðja lagi hvatt til þess að virðisaukaskattur af sölu tónlistar á netinu verði lækkaður úr 25,5% í 7%. Það hefur þegar verið gert. Í bókuninni er hvatt til víðtækrar kynningaherferðar til að upplýsa almenning um kosti lögmætra nota tónlistar á netinu umfram ólögmæt not. Við erum nú í ráðuneytinu með sérstaka heimasíðu í smíðum til að vinna að því máli að auka kynningu á þessum efnum sem er einkum ætlað að ná til ungs fólks.

Ég held ég fari kannski nánar yfir málið í seinna svari mínu en eins og heyra má er þetta mjög víðfeðmt mál sem kannski kallar í ítarlegri umræðu.