140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

ólöglegt niðurhal.

124. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Almennt hefur afstaða mín í þessum málum verið sú að að sjálfsögðu sé mikilvægt, eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu, að verja rétt höfunda þannig að þeir fái eðlilega greitt fyrir vinnu sína. Ég hef hins vegar líka haft þá skoðun að betra sé að stuðla að því að framboð af löglegu efni sé fullnægjandi fremur en ráðast fyrst í það sem við getum kallað íþyngjandi aðgerðir, þ.e. ég tel mjög mikilvægt að við tryggjum fyrst að fólk geti nálgast efnið löglega áður en farið er út í harðar íþyngjandi aðgerðir.

Í ljósi þess sem hv. þingmaður nefndi, um afstöðu mína gagnvart lokun á aðgangi, tel ég mikilvægt að við getum fyrst sagt að við tryggjum að neytendur hafi greiðar leiðir til að nálgast efnið með löglegum hætti. Staðreyndin er sú að unga fólkið sem nú byggir landið — mér finnst spaugilegt að tala svona, ég er sjálf greinilega svo gamaldags — hefur vanið sig á að ná í efni á sama augnabliki og því dettur það í hug, þau fara strax á netið og sækja það sem þau vilja, „med det samme“. Jafnvel þó að þau séu úti að hlaupa er hægt að hlaða þessu strax niður með ýmiss konar tækjum og tólum. Þetta er gerbreytt frá því sem var fyrir nokkrum árum og það er erfitt að semja ný höfundaréttarlög sem laga sig að þeim aðstæðum. En þetta eru þær aðstæður sem við verðum að horfast í augu við, þetta eru þær kröfur sem neytendurnir gera.

Það stendur yfir vinna við undirbúning frumvarps til breytinga á höfundalögum í næsta áfanga en ég á von á að það verði lagt fram á haustþingi 2012 og þriðji áfangi detti þá inn 2013. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta kostar sitt en ég tel mjög mikilvægt að við ljúkum þessari vinnu með einhverjum hætti, lítum til grannlanda okkar á Norðurlöndum eins og rætt var og við höfum gert það oft, átt þar gott samstarf. En ég tel líka mjög mikilvægt að við komum til móts við þær kynslóðir sem eru að alast upp í landinu og hafa (Forseti hringir.) vanið sig á allt annað neyslumynstur en við sem eldri erum.