140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

áhrif rafbókarinnar á skóla og menningu.

125. mál
[18:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð viss um að þessi tækninýjung, rafbækur eða spjaldtölvur eða lesbretti eða hvað við köllum það, hefur mjög jákvæð áhrif á skólakerfið hér á landi. Hún getur að sjálfsögðu haft neikvæð áhrif á tilteknum sviðum ef ekki er stigið varlega til jarðar og málið vel undirbúið en í raun og veru er þetta annað form til að nálgast lesefni. Það eru auðvitað gæði lesefnisins sjálfs sem skipta meginmáli.

Rafbókin býður upp á mikil tækifæri. Ef við mundum til að mynda innleiða rafrænt námsefni í skólakerfinu gæti það hraðað endurskoðun námsefnisins, það gæti boðið upp á meiri gagnvirkni í námi og kennslu, lagað námsefni að þörfum hvers og eins. Fyrir nemendur sem glíma við lestrarörðugleika er þetta einkar hentugt form þar sem hægt er að breyta bakgrunni, letri, leturgerð og fleiru. Og auðveldara ætti að vera að nálgast efnið hratt og vel. Á allan hátt er auðveldara að fletta upp í rafbókum fyrir utan að þær gætu sparað ýmsan kostnað til lengri tíma litið, svo sem pappírs- og prentunarkostnað, og sparnaðinn mætti nota til að auka og efla námsefnisgerð.

Ég held að við horfum á þetta út frá tveimur sjónarhornum. Annars vegar þurfum við að horfa á hvernig markaðurinn fyrir námsgögn hefur þróast. Félag íslenskra bókaútgefenda hefur bent á að koma megi á heilbrigðum markaði fyrir námsgögn þar sem allir fái eðlilega greitt fyrir vinnu sína með því að byggja upp rafbókamarkað fyrir framhaldsskóla þar sem skólarnir mundu innheimta gjald af nemendum sem yrði ekki nema brot af núverandi kostnaði nemenda við bókakaup. Það er hugmynd sem við höfum rætt við námsgagnaútgefendur, bókaútgefendur og námsgagnahöfunda. Við erum með tilraunaverkefni í gangi og raunar eitt sem er í grunnskólunum þar sem Námsgagnastofnun og Skólavefurinn eru í samstarfi um notkun rafbóka í völdum tilraunaskólum. Ég er mjög spennt að sjá hvað kemur út úr því.

Hins vegar er mikil krafa á hinum alþjóðlega vettvangi, sem kannski byrjaði í háskólasamfélaginu og vísindasamfélaginu, og snýst um það sem við köllum opið aðgengi að efni á netinu, ekki síst efni sem er unnið fyrir opinbera fjármuni. Ég held að við þurfum að horfa í þessari stefnumótunarvinnu til þeirrar hugmyndafræði líka hvað varðar opið menntaefni, þ.e. að menntaefni sem er fjármagnað með opinberu fé fái svokölluð opin höfundaleyfi og verði þar með dreift ókeypis með rafrænum hætti. Það mun auðvelda notendum að nýta efnið til fullnustu þar sem þeir vita þá nákvæmlega hvað þeir geta gert við efnið en í þessum leyfum felst að þeir mega breyta efninu, bæta við það, aðlaga það að sér og því námi og kennslu sem á að nota það í. Það þýðir að efnið er frekar í takt við tímann og samfélagið á hverjum tíma. Ég held að rafbókin muni styðja við þessa þróun. Við sjáum þessa þróun á alþjóðlegum vettvangi þannig að ég held að það skipti miklu máli að við mótum okkur stefnu um það hvernig við viljum styðja við þetta. Þegar við skoðum til að mynda hvað hefur gerst þar sem opnað hefur verið fyrir þennan aðgang erlendis, sérstaklega í vísindasamfélaginu, hefur það ekki endilega skilað tapi til lengri tíma litið. Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að skoða mjög ítarlega og sjá hvernig við getum fyrst og fremst tryggt þessa námsgagnaútgáfu fyrir skólana og nemendur okkar.

Þó að hv. þingmaður hafi ekki tíma til að ræða málefni rafbóka annars staðar en í skólum eru auðvitað heilmikil tækifæri þar, ekki síst í gömlu efni sem hefur lengi verið ófáanlegt. Það er hægt að koma því aftur í umferð. Rithöfundar sem ekki hafa komist að hjá hinum stóru forlögum hafa aukna möguleika á að markaðssetja sig sjálfir með þessari tækni þannig að allt aðgengi ætti að verða betra. Útgefendur eru farnir að huga að útgáfu rafbóka á íslensku og það má búast við að hlutdeild þeirra aukist mjög hratt á næstu árum. En eins og ég segi eru ýmis álitamál sem snúa að höfundarétti og viðskiptaumhverfi.

Ég nefni sem dæmi bókasöfnin í blálokin. Í Danmörku hafa nokkur almenningsbókasöfn farið af stað með tilraunaverkefni með rafræn útlán þar sem rétthafar hafa sameinast um samning um málið og hvernig eigi að haga greiðslum. Í Bretlandi hafa háskólar sameinast um eitt háskólabókasafn á netinu en á sama tíma og þetta er að gerast í einstökum ríkjum þá vinnur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að tillögum sem virðast ganga gegn slíkum sameiginlegum samningum. Við sjáum því að mikið er að gerast í þessum efnum. Einstök ríki hafa tekið ákvarðanir í aðrar áttir en til að mynda stefnir í innan ESB. Við þurfum því og höfum reyndar hafið vinnu við stefnumótun um opið menntaefni og átt fundi með námsgagnaútgefendum og bókaútgefendum um hvernig við getum aukið þennan þátt rafræns efnis. Ég lít svo á að næsta ár verði undirlagt fyrir stefnumótun af þessu tagi.