140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

fjölgun framhaldsskóla.

227. mál
[18:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Já, það er mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvernig skóla við viljum bjóða upp á. Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir bekkjarskólum og mikil eftirspurn til að mynda eftir skólum sem leggja áherslu á ákveðnar starfsgreinar eða listmenntun. Ég hvet ráðherra til að slá ekki út af borðinu listmenntaskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að miklu skipti að halda þeirri hugmynd lifandi. Ég fagna því líka sérstaklega að svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi mun betra lag á núverandi borgarstjórnarmeirihluta en fyrri ráðherra varðandi húsnæðismál Menntaskólans í Reykjavík. Núverandi formaður borgarráðs var þá borgarstjóri og var ekki hrifinn af því að færa Kvennó yfir í Miðbæjarskólann þannig að ég óska ráðherra til hamingju með þetta skref. Ég fagna því.

Engu að síður búum við við þessa reglu um hverfaskiptingu sem var ákveðin af núverandi ráðherra. Það býður upp á að þá verður að bjóða upp á meiri fjölbreytni á fleiri stöðum en bara í Reykjavík. Ég geri mér grein fyrir því að kostnaður er náttúrlega mikill samhliða þessu og við megum ekki hætta til að mynda við þau margra ára gömlu áform um að hlúa betur að Menntaskólanum í Reykjavík. Þar liggur fyrir skipulag og plan og ég vona að ráðherra haldi áfram með það, og ég tala nú ekki um Menntaskólann við Sund sem er búinn að bíða mjög lengi og það er ekkert endilega öllum fyrri ráðherrum til framdráttar.

Þetta eru að sjálfsögðu erfið og stór verkefni en engu að síður er mesti þunginn alltaf á höfuðborgarsvæðinu. Hér er þörfin brýnust og það gengur ekki að á suðvesturhorninu þurfi á haustdögum að vera að henda á milli einum 100, jafnvel 200, einstaklingum sem er erfitt að fá inni fyrir. Fyrir utan það held ég að við hljótum að vilja bjóða upp á þannig umhverfi í framhaldsskólunum að börnin okkar og hæfileikar þeirra fái notið sín. Það er ekki alveg hægt að gera (Forseti hringir.) núna miðað við það umhverfi og þá samþjöppun sem hefur átt sér stað á þessu svæði.