140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

strandveiðar.

264. mál
[19:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hans á strandveiðunum sem ég (Gripið fram í.) tel að sé eitt mikilvægasta nýmælið sem við höfum tekið upp hin síðari ár varðandi fiskveiðar. Þótt ekki sé mikið magn þar á ferð hefur það haft gríðarleg margfeldisáhrif í mörgum byggðum og komið til móts við óskir og þarfir fjölmargra sem vilja fara á sjó án þess að þurfa að kaupa til þess sértækar aflaheimildir.

En varðandi spurningar hv. þingmanns, sem spyr m.a.: Hefur verið lagt til tölulegt mat á hvort strandveiðar hafi stuðlað að raunverulegri nýliðun í sjávarútvegi eins og að var stefnt? — er erfitt að meta það. Í skýrslu um úttekt á framgangi og áhrifum strandveiða sumarið 2009, gerð af Gísla Halldóri Halldórssyni, sem kom út í janúar árið 2010, voru fulltrúar 100 báta af þeim 554 bátum sem tóku þátt í veiðunum spurðir. Af þeim sögðust 59% hafa aflað sér mikilvægrar reynslu, fimmtungur eða 20% hafði aldrei áður gert út bát. Voru því um 110 á þessum veiðum sem algerir nýliðar. Um það bil helmingur þeirra sem stunduðu veiðarnar hefðu gert það ef strandveiðar hefðu ekki komið til. Það má segja að veiðarnar hafi greitt leið fyrir 270 aðila til að stunda veiðar sem annars hefðu ekki átt aðgang að þeim. Auðvitað er erfitt að alhæfa út frá þessu en þetta eru þær tölulegar upplýsingar sem liggja fyrir.

Í öðru lagi er spurt hvort kannað hafi verið hversu margir þeirra sem stundað hafa strandveiðar frá því að þær hófust hafi selt frá sér kvóta. Í þessari sömu skýrslu kemur fram að 24% útgerðarmanna sögðust einhvern tímann hafa selt allan sinn kvóta en 11% þátttakenda í könnuninni vildu ekki svara spurningunni. Yfir helmingur útgerðarmanna, eða 53%, sögðust einhvern tímann hafa átt bát sem fluttist yfir í kvótakerfi á árunum 1991, 1995 og 2004, en það voru helstu flutningsár smábáta yfir í aflamarkskerfið. Samkvæmt könnuninni fluttust 10% allra útgerðarmanna yfir í kvótakerfið í öll þrjú skiptin. Í 80% tilfella eru þessir aðilar enn handhafar kvóta.

Eins og hv. þingmaður vék að hafa þeir sem selt hafa frá sér aflaheimildir á árum áður í sjálfu sér ekki brotið nein lög í þeim efnum. Þeir hafa starfað samkvæmt þeim lögum sem hafa gilt og þótt mörgum okkar hafi fundist dapurt þegar verið var að selja aflaheimildir, ég tala nú ekki um úr byggðarlögum, er ekki ólöglegt að þeir taki þátt í strandveiðum.

Mikilvægt er að í gegnum þessa leið sé hægt að finna möguleika fyrir nýliða til að komast inn í greinina, vaxa í henni og kynnast fiskveiðum. Ég hef fundið á ferðum mínum um landið, um sjávarbyggðirnar, ekki síst í sumar þar sem ég heimsótti allmargar, hversu almenn ánægja er með það líf sem fylgt hefur strandveiðunum í sjávarbyggðunum. Það er ekki endilega tengt aflanum heldur lífinu þarna og aðilar sem ekki höfðu áður átt möguleika á að stunda sjó gátu gert það yfir sumarmánuðina. Ég vek líka athygli á því að strandveiðunum hefur fylgt jákvæð umræða í garð sjávarútvegsins á þessum stöðum, sem ég tel mikilvægt.

Hvort sem það er þessi umræða eða strandveiðarnar þá voru það ánægjuleg tíðindi að nú í haust sóttu mun fleiri um nám í skipstjórnarfræðum en undanfarin ár. Það er afar mikilvægt fyrir endurnýjun í greininni að sem flestir stundi nám á þessu sviði. Ég tel að strandveiðarnar eigi tvímælalaust mikinn þátt í því að skapa (Forseti hringir.) enn jákvæðari umgjörð og umhverfi um fiskveiðarnar og sjávarútveginn í sjávarbyggðunum. Ég fagna því mjög.