140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

strandveiðar.

264. mál
[19:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og sömuleiðis fyrir þá umræðu sem hefur farið fram.

Í fyrsta lagi kemur mér dálítið á óvart að þessi mál hafi ekki verið skoðuð frá árinu 2009 því að við vitum að mjög margt hefur breyst í umhverfi strandveiðanna. Ég hafði skilið það svo að hæstv. ráðherra ætlaði að láta skoða þetta eitthvað frekar, sérstaklega þessar umhugsunarverðu tvær spurningar. Í fyrsta lagi hvort þessi nýliðun hefði skilað sér. Ég les það ekki út úr tölum hæstv. ráðherra að það hafi orðið ýkja mikil nýliðun. Sérstaklega væri fróðlegt að skoða þetta í því ljósi sem ég var að nefna, að mjög fljótlega eftir að strandveiðarnar hófust hækkuðu bátarnir í verði og það varð æ erfiðara fyrir þá sem vildu taka þátt í þessum veiðum að gera það. Í öðru lagi las ég það út úr þeim tölum sem hæstv. ráðherra reiddi hér fram, það blasti við, að mjög margir þeirra sem stunduðu nú strandveiðar hefðu átt kvóta einhvern tímann og annaðhvort selt að hluta til eða allan og væru að nota þá fjármuni til að komast í veiðarnar að nýju. Þetta kom mér í sjálfu sér ekki á óvart. Auðvitað blasti það við að langlíklegast væri að þeir sem mundu fara inn í þessar veiðar væru menn sem hefðu einhverja þekkingu á veiðunum og þá var ekkert ólíklegt að það væru til dæmis menn sem hefðu átt báta og stundað útgerð og þekktu til þessara veiða því að menn geta auðvitað ekki farið til veiða án þess að þekkja nokkurn skapaðan hlut til.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að auðvitað hefur þessu fylgt ákveðið líf í þeim byggðum sem fengið hafa strandveiðarnar, en ég vek athygli á því að um er að ræða sumarveiðar fyrst og fremst og á mörgum stöðum fá menn að veiða fjóra, fimm daga í mánuði þrátt fyrir aukningu afla sem farið hefur inn í þetta kerfi. Auðvitað fylgir því ákveðið líf og tekjur þegar úthlutað er meiri kvóta en áður hafði verið gert eins og gert var í þessu tilviki. Ég er ekkert viss um að þetta hafi verið skynsamlegast. Það er augljóst mál að þetta hefur aukið kostnað í sjávarútveginum, aukið skuldsetninguna, en það hefur ekki skapað viðbótarverðmæti miðað við það sem hefði gerst hefðu menn (Forseti hringir.) gert þetta með öðrum hætti.