140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

strandveiðar.

264. mál
[19:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það má vel vera rétt hjá hv. þingmanni að það þurfi að grípa til fleiri aðgerða til að hvetja til nýliðunar í sjávarútvegi. Eitt af því sem ég legg áherslu á við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða er að finna leiðir til þess að nýliðar komist inn í greinina eða geti spreytt sig þar án þess að þurfa að leggja mikið fjármagn til. Ég tek því alveg undir þær áherslur hv. þingmanns.

Ég vil þó árétta og ítreka að ég tel að strandveiðarnar hafi verið gríðarlega mikilvægt skref fyrir margar sjávarbyggðir til að afla tekna og líka til að skapa fjölbreyttara líf og samfélag. Þó að þær séu aðeins yfir sumartímann eru þær samt mjög mikilvægar, ég tala nú ekki um fyrir ungt fólk sem kemur heim úr skólum og er heima yfir sumarmánuðina og fær þarna möguleika til að spreyta sig þótt í skamman tíma sé. Það er alveg ómetanlegt. Lengi má betur gera og ég vonast til að við getum stigið enn fleiri skref í þá veruna.

Ég vil í lokin minnast á ágæta skýrslu sem tekin var saman í sumar um gæði strandveiðiafla 2011 þar sem gerð var nákvæm úttekt á gæðum strandveiðiaflans vítt og breitt um landið. Þar kom fram að gæði hans eru almennt fyllilega sambærileg við afla annarra báta. Auðvitað er meiri vandi að fara með fiskinn að sumri til en áhersla hefur verið lögð á kennslu, fræðslu og hvatningu, ekki síst af samtökum sjómanna sjálfra, til þess að gæðin verði sem best og það hefur skilað árangri. Gæði strandveiðiaflans hafa verið góð og fyllilega sambærileg við gæði annars afla. Á árinu 2011 veiddust 8.544 tonn á (Forseti hringir.) strandveiðunum og ég vonast til að þær skapi öflugt og gott starf áfram og hlakka til næsta árs í þeim efnum.