140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

náttúruverndaráætlanir.

262. mál
[19:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég ber upp þessa fyrirspurn má kannski lýsa því þannig að ég sitji við minn keip, því að sannleikurinn er sá að ég hef verið gamall baráttumaður fyrir því að náttúrustofurnar í landinu fái að gegna meira hlutverki þegar kemur að undirbúningi náttúruverndaráætlana og framkvæmd þeirra. Lengi vel bar þetta ekki mikinn árangur að öðru leyti en að það tókst að fá aukna fjármuni í gegnum Alþingi til starfsemi náttúrustofanna. Hins vegar gerðist það við gerð síðustu náttúruverndaráætlunar að ég lagði fram breytingartillögu sem hljóðaði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.“

Tilgangur minn með því var sá að reyna að skjóta styrkari stoðum undir rekstur náttúrustofanna. Mér hafði lengi gramist að þær væru settar hjá þegar kom að undirbúningi náttúruverndaráætlana, ég tala nú ekki um framkvæmd þeirra sem ég taldi vera mjög órökrétt í ljósi þess að náttúrustofurnar voru starfandi úti um allt land þar sem náttúruverndaráætlanir skiptu miklu máli. Það var því mjög rökrétt verkefni að náttúrustofurnar fengju þar meira í sinn hlut þegar kæmi að undirbúningi og framkvæmd þessara áætlana.

Þau gleðilegu tíðindi gerðust hins vegar við samþykkt síðustu áætlunar að þessi breytingartillaga var samþykkt. Í kjölfarið lagði ég fram aðra fyrirspurn í upphafi þessa árs þar sem ég spurðist fyrir um hvað þessu máli liði, hvernig að þessu hefði verið unnið.

Þetta var auðvitað ekki komið mjög langt á leið, þ.e. þessi framkvæmd náttúruverndaráætlunarinnar. Hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, svaraði því þannig að verið væri að vinna að friðlýsingu landsvæða við Skerjafjörð, þar hefði Náttúrufræðistofa Kópavogs komið að vinnunni. Í Vestmannaeyjum hefði Náttúrustofa Suðurlands komið að verkefni við friðlýsingarskilmála. Í Skagafirði hefði Náttúrustofa Norðurlands vestra komið að undirbúningi vinnu við friðlýsingu Austara-Eylendisins. Sömuleiðis hefði ráðuneytið í samráði við heimamenn unnið að undirbúningi að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Skildi ég það sem svo að þar væri náttúrustofunum ætlað nokkurt hlutverk.

Ég tel mjög mikilvægt að þessu máli sé haldið vakandi vegna þess að við vitum að kerfið malar sína leið. Oft er það þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt einhverjar viljayfirlýsingar gerist eitthvað í framhaldinu sem við áttum okkur ekki á. Þess vegna er mikilvægt að halda mönnum við efnið og tryggja að staðið sé við þá samþykkt sem gerð var. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram þá fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra sem er svona:

Með hvaða hætti hafa einstakar náttúrustofur komið að framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlana og hvaða viðbótarfjármunum hefur verið varið til hverrar náttúrustofu í þessu skyni?