140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

náttúruverndaráætlanir.

262. mál
[19:15]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og raunar fyrir það að halda þessu máli vakandi varðandi náttúrustofurnar í landinu. Ég deili með honum miklum áhuga á starfsemi þeirra og jafnframt því mati að þær skipta miklu máli að því er varðar framkvæmd náttúruverndar í landinu vegna nálægðar sinnar við sveitarfélögin.

Því er til að svara að fjármögnun náttúruverndaráætlana er í samræmi við kostnaðarmat við þingsályktanir til að byrja með sem eru grunnur að þeim tveimur áætlunum sem hafa þegar verið samþykktar. Framkvæmdin er síðan samkvæmt lögunum í höndum Umhverfisstofnunar. Af þeim sökum rennur framkvæmdaféð til hennar, fé til að koma þeim í kring, þ.e. friðlýsingunum. Í því kostnaðarmati er ekki gert ráð fyrir sérstökum framlögum til náttúrustofa, enda er það, eins og kom fram í fyrirspurninni, tiltölulega nýtilkomið að þetta sé orðið hluti af samþykkt þingsins, aðkoma náttúrustofanna við framkvæmd og undirbúning náttúruverndaráætlana.

Náttúrustofurnar hafa veitt ýmsa ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við gerð og framkvæmd náttúruverndaráætlunar en þær hafa ekki fengið neina sérstaka viðbótarfjármuni né aðrir aðilar í sjálfu sér vegna verkefna sem tengjast beinlínis framkvæmd náttúruverndaráætlana.

Þó er það svo, til viðbótar við þær framkvæmdir eða þær friðlýsingar sem hv. þingmaður nefndi í spurningu sinni því til að svara, að þær hafa sinnt ýmsum verkefnum á sviði náttúruverndarmála almennt. Þar má til dæmis nefna nýlegt dæmi um verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá sem var unnin fyrir Umhverfisstofnun af Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík.

Umhverfisstofnun hefur nýlega gert samning við Náttúrustofu Norðausturlands varðandi vinnu við verkefnisstjórn og faglega ráðgjöf við gerð stefnumótunar og rammaverndaráætlunar fyrir friðlýst svæði í umsjón Umhverfisstofnunar. Þar er í raun og veru um að ræða framsetningu á grundvelli verndaráætlana almennt í stað þess að fara á byrjunarreit með verndaráætlanir hvers svæðis fyrir sig, að þarna verði um að ræða einhvers konar grunn eða ramma sem hægt er að nota til viðmiðunar fyrir verndaráætlanir víða um land, því að oft er það svo að um er að ræða sömu þætti sem þarf að taka fram í verndaráætlunum og ætti það að tryggja betri framkvæmd. Þarna skipar Náttúrustofa Norðausturlands lykilhlutverk og hefur þar tækifæri til að þróa sína sýn og starfsemi hvað þetta varðar.

Samningurinn hljóðar upp á 2,5 milljónir fyrir yfirstandandi ár, gildir til ársloka 2011, og felur það í sér að náttúrustofan veitir faglega ráðgjöf varðandi efnisatriði og áherslur stefnumótunar fyrir friðlýst svæði í landinu, verkstjórn þessa verkefnis, undirbýr og skipuleggur fundi í samráði við Umhverfisstofnun og vinnur úr niðurstöðum þeirra ásamt því að marka stefnumótun sem skilað verður í lokaskýrslu til Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun leitar líka til náttúrustofa víða um land við vinnslu fræðsluefnis fyrir friðlýst svæði, en þar eru ekki sértækir samningar í gildi heldur er borgað fyrir þá þjónustu eftir reikningi. Þá má nefna til að mynda Náttúrustofu Austurlands sem vinnur nú að gerð fræðsluefnis á skilti fyrir Umhverfisstofnun og verður það greitt í fyllingu tímans eftir reikningi.

Í umfjöllun hv. þingmanns í fyrirspurninni nefndi hann framkvæmd gildandi náttúruverndaráætlana en ekki síður undirbúning áætlana. Því er til að svara að nú höfum við afgreitt tvær náttúruverndaráætlanir í gegnum þingið og undirbúningur þeirrar þriðju mun væntanlega hefjast þegar á nýju ári. Og þá finnst mér einboðið í anda þess vilja sem kom fram í atkvæðagreiðslu í þinginu að frumkvæði hv. þingmanns að náttúrustofurnar komi að þeim undirbúningi.

Það hefur verið heilmikið til umfjöllunar að undanförnu, ekki síst varðandi vinnslu hvítbókar um náttúruvernd, sú staðreynd hversu treglega okkur hefur gengið að koma í framkvæmd þeim svæðum sem liggja þó fyrir í náttúruverndaráætlun á hverjum tíma. Það er oft og einatt vegna viðnáms heimamanna, þ.e. að þrátt fyrir að fyrir liggi vísindaleg rök og samþykkt Alþingis og fjármagn til Umhverfisstofnunar hefur okkur ekki lánast að ljúka friðlýsingum, stundum vegna þess að fram kemur andóf annað hvort frá sveitarfélögum eða landeigendum.

Ég bind vonir við að (Forseti hringir.) við getum með aukinni aðkomu náttúrustofanna líka bætt þennan (Forseti hringir.) þátt undirbúnings náttúruverndaráætlunar.