140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

náttúruverndaráætlanir.

262. mál
[19:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hef fundið það í orðaskiptum okkar sem hafa verið nokkur um þessi mál að hæstv. ráðherra er mér sammála um að mikilvægt sé að setja almennilegar stoðir undir starfsemi náttúrustofanna. Ég held að þetta kristallist í því að náttúrustofurnar eru í eiginlegum skilningi í mjög mikilli nálægð við sjálft viðfangsefnið sem náttúruverndaráætlunin tekur til.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að heyra að í raun og veru hafi ekki verið eyrnamerkt, ekki í gegnum fjárlög heldur í gegnum verkefnið sem verið er að vinna á vegum til dæmis Umhverfisstofnunar við eftirfylgni á þessari náttúruverndaráætlun, fjármunir sem færu þá til tiltekinna náttúrustofa á þeim landsvæðum sem við eiga í hverju tilviki. Það sem ég var í rauninni að reyna að fiska eftir var hvort það væri þá ekki þannig þegar kæmi að framkvæmdinni, sem sannarlega kostar peninga og við leggjum til fjármuni í fjárlögum, að tiltekin verkefni væru útvistuð eða send til náttúrustofanna af hálfu yfirvalda til að vinna úr með einhverjum hætti. Hæstv. ráðherra nefndi að vísu einstök dæmi eins og undirbúning að skiltagerð eða einhverju slíku. En ég hafði ímyndað mér að þegar farið yrði að framkvæma þennan vilja Alþingis væri gert ráð fyrir því að einhver tiltekin verkefni sem annars hefðu verið unnin héðan úr Reykjavík væru unnin í gegnum náttúrustofurnar og þær fengju þá hluta af þeim skerf sem við ætluðum til þeirrar vinnu í gegnum viðeigandi stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.

Það er eiginlega það sem ég vil árétta við hæstv. ráðherra að sé mjög mikilvægt að gert verði, þ.e. að að þessum málum verði unnið áfram og að á næsta ári verði til dæmis tryggt að tiltekin verkefni verði send til náttúrustofanna og fjármunir fylgi úr þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ákveðið.

Ég vil síðan fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra þar sem hún sagði að einboðið væri að (Forseti hringir.) náttúrustofurnar kæmu að undirbúningi næstu náttúruverndaráætlunar. Ég treysti henni til að fylgja því eftir.