140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

náttúruverndaráætlanir.

262. mál
[19:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrra svar mitt að bæta. Hins vegar er það svo að framfylgd náttúruverndaráætlunar má kannski skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi samskiptin við heimamenn og undirbúningur friðlýsinga. Síðan að setja saman friðlýsingarskilmála. Þá er um að ræða töluverða lögfræði og tæknivinnu sem Umhverfisstofnun hefur haft með höndum í samstarfi við ráðuneytið. Einnig er það gerð verndaráætlana fyrir viðkomandi svæði og loks rekstur og utanumhald svæðisins. Það er því alveg ljóst að þessa þætti má brjóta upp með enn betri og skýrari hætti og styrkja þar með aðkomu náttúrustofanna. Umhverfisstofnun er ljós vilji Alþingis og áherslur mínar í þessu efni. Ég geri ráð fyrir að styrkja megi þessar áherslur enn frekar en þegar hefur verið og mun beita mér í því efni og treysti þingmanninum til að halda mér við efnið í því.