140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

yfirfærsla málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga.

116. mál
[19:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er mikilvægt að þingið fylgi eftir þeim breytingum sem það hefur sjálft staðið fyrir og ekki síst þeim breytingum sem mikill samhljómur hefur verið um hér innan húss. Ég vil því fagna því sem kom fram í máli ráðherra. Ég tel nefnilega — ég er nú ágæt í því að fylgjast með þessum málaflokki — að margt gott hafi verið gert í málaflokknum og gríðarlega mikið áunnist á síðustu árum í málefnum fatlaðra, ekki aðeins flutningurinn heldur ekki síður það sem hæstv. ráðherra kom inn á. Það á við um notendastýrða persónulega aðstoð, það á við um samning Sameinuðu þjóðanna og um það að réttindagæslumenn eru teknir til starfa og er skipt niður á landsvæði. Það er margt mjög gott sem vert er að vekja athygli á og það gleymist fljótt sem vel er gert þannig að rétt er að þakka það. En um leið erum við meðvituð um að við þurfum að halda áfram. Við þurfum að halda áfram til að gera betur og hlúa að öllum þeim einstaklingum sem eiga ekki síst við ákveðnar fatlanir að stríða.

Ég ítreka spurningu mína varðandi áðurnefnda 11 einstaklinga. Þetta eru 11 einstaklingar sem eins og ég gat um áðan hafa lent á milli skips og bryggju við tilflutning verkefna til sveitarfélaganna. Ég tel brýnt að þeir njóti réttinda sem aðrir fatlaðir njóta í samfélaginu, eins og til að mynda þess sem ég gat um að þeir hafa ekki í dag rétt til örorkubóta eins og aðrir fatlaðir.

Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör. Ég mun halda áfram að spyrja hann spurninga í tengslum við þennan málaflokk og yfirfærsluna og margt, margt fleira. Ég tel að það sé eitt og annað sem þurfi að taka á í tengslum við yfirfærsluna, en við vitum líka og gerðum okkur grein fyrir því að þetta er verkefni sem við ætlum að vinna saman. Við ætlum að fara yfir þetta (Forseti hringir.) verkefni að mig minnir að þremur árum liðnum, þegar það hefur staðið í þrjú ár, til að vega og meta kosti og galla þessa flutnings (Forseti hringir.) sem ég er enn sannfærð um að hafi verið rétt skref.