140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

yfirfærsla málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga.

116. mál
[19:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um að hér hafi náðst verulega miklar framfarir í málefnum fatlaðs fólks. Það er ekki síst að þakka einmitt frumkvæði Alþingis, því að þegar við lögðum málið fram fyrr á þessu ári bætti Alþingi inn í málaflokkinn, gerði ýmsar kröfur og fylgdi málum afar vel eftir og það er vel.

Varðandi þá fyrirspurn sem hv. þm. Eygló Harðardóttir kom með, um kostnað vegna geðfatlaðra, verð ég að viðurkenna að ég hef ekki svarið við því. Það hefur ekki komið sérstaklega inn til mín sem ráðherra. Það gæti hafa verið til umræðu í hópnum sem fylgist með framkvæmdinni eða í jöfnunarsjóðsumræðunni án þess að ég hafi fengið það mál sérstaklega inn á mitt borð.

Hins vegar kannast ég afar vel við það mál sem nefnt var hér um þá 11 einstaklinga sem enn búa undir handarjaðri Landspítalans í Kópavogi. Það er mál sem við verðum að leysa þó að ekki hafi verið lögð nein sérstök plön hvað það varðar. Það snýst um að koma fólki í varanlega búsetu við eðlileg kjör og í sambærilegu umhverfi og við ætlum öllum öðrum fötluðum. Þetta er síðasti hlutinn í yfirfærslu á milli stofnana og yfir í sjálfstæða búsetu. Það mál lifir án þess að það hafi verið leyst enn þá.

Ég ætla að nefna eitt mál sem við höfum aðeins verið í vandræðum með varðandi framkvæmdaáætlunina og er svolítið verið að togast á um núna. Það er einmitt um atvinnumál fatlaðs fólks, hvorum megin þau eigi að vera, hvort þau fari undir Vinnumálastofnun eða ekki. Ég vildi nefna það hér þannig að menn viti að verið er að glíma við það akkúrat þessa klukkutímana og dagana, þannig að við getum haft það í framkvæmdaáætluninni. Þetta var fært yfir til sveitarfélaganna en þar hefur verið spurning um að hve miklu leyti og hvort þau eigi að vera undir Vinnumálastofnun eða annars staðar. Við þurfum að finna lausn á því.

Eitt af stóru verkefnunum fram undan, og það er auðvitað margt fram undan, er fullgilding og lögfesting á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við eigum líka eftir að koma á fót eftirlitsstofnun sem (Forseti hringir.) fylgist með framkvæmdinni þannig að það er heilmikið eftir.

Ég þakka hv. 5. þm. Suðvest., Þorgerði K. Gunnarsdóttur, fyrir fyrirspurnina og vona að þetta hafi lýst stöðunni eins og hún er.