140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

HPV-bólusetning.

235. mál
[19:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Það væri áhugavert að heyra aðeins nánar um það sem hæstv. ráðherra talar um varðandi kostnaðarhagkvæmnina vegna þess að samkvæmt því efni sem ég aflaði mér þegar ég var að undirbúa þessa fyrirspurn virðist tíðni krabbameina hjá karlmönnum, annars vegar í endaþarmi og hins vegar í hálsi, vera að aukast mjög mikið á meðan tíðni leghálskrabbameins hefur dregist mjög mikið saman. Það væri áhugavert að heyra hvort ráðherrann hefur einhverjar tölur um tíðni þessara krabbameina og hvort sambærileg þróun sé hér á landi varðandi einmitt þessa tegund af krabbameinum. Ég hef einhvers staðar séð eða heyrt talað um að þetta kostaði 22 til 25 þús. kr. og því er spurning hvort foreldrar gætu valið þessa bólusetningu fyrir drengina sína ef þeir hefðu áhuga á því.

Ég vil líka aðeins koma almennt inn á heilbrigði ungs fólks. Nýlega var kynnt fyrir nefndarmönnum í velferðarnefnd áfangaskýrsla um heilbrigði ungs fólks. Þar var mjög sláandi, mundi ég segja, hvað við stóðum okkur áberandi verst hvað varðar kynhegðun og kynheilsu ungs fólks á meðan við stóðum okkur mjög vel í því að draga úr áfengis- og tóbaksneyslu og meira að segja offitu þó að slíkt hafi verið töluvert rætt. Notkun smokka er eitt af því sem skiptir miklu máli þegar kemur að HPV-smiti en hér á landi voru þeir síður notaðir, hér voru flestar þunganir meðal ungra stúlkna, flestir bólfélagar og líka flest smit af kynsjúkdómum í samanburði við Norðurlöndin en Norðurlöndin hafa nú almennt þótt vera frekar frjálslynd þegar kemur að kynlífshegðun.

Miðað við þessa áfangaskýrslu tel ég brýnt, þó að hér sé sérstaklega verið að ræða um HPV-smit og bólusetningar því tengt, að við skoðum síðan (Forseti hringir.) heildstætt líka hvað við getum gert til að tryggja sem heilbrigðasta kynhegðun hjá okkar unga fólki.