140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

leiðrétting fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði.

282. mál
[19:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nú skulum við ræða töluvert ólíkt málefni sem er líka hluti af hinu stóra ráðuneyti velferðarráðherra.

Í tölvupósti sem barst þingmönnum rakti lántaki hjá Íbúðalánasjóði þrautagöngu sína í gegnum 110%-leið ríkisstjórnarinnar. Viðkomandi átti fasteign sem var metin á 12,9 millj. kr. Á henni hvíldi lán að andvirði tæplega 26 millj. kr. þann 1. janúar 2011. Ég dúndra hér nokkrum tölum á hæstv. ráðherra. Í maí 2011 sótti viðkomandi um 110%-leiðina og fékk svar í byrjun nóvember um að umsókn hans væri samþykkt. Grunnurinn sem miðað var við sem 110% var 14,2 milljónir. Lánið hélt hins vegar áfram að safna á sig kostnaði, þar með talið verðbótum í verðbólgunni og stóð í 28,2 millj. kr. þegar erindið var samþykkt nú í nóvember. Viðmiðið við lækkunina var þó staðan 1. janúar 2011. Frá niðurfærslunni voru svo dregnir þrír ónýtir bílar samkvæmt verðmati ríkisskattstjóra og tvö órekstrarhæf fyrirtæki. Eftir niðurfellinguna stóðu því í staðinn fyrir 14,2 milljónir, sem hefðu þá verið 110%, 17,7 millj. kr., eða eins og viðkomandi reiknaðist til 137% veðsetningarhlutfall í staðinn fyrir 110%.

Almenna leiðin er sú að skuldari getur fengið niðurfærslu skulda sinna í 110% af verðmæti fasteignar án tillits til þess hvort hann er í greiðsluvandræðum eða ekki. Nokkur fjármálafyrirtæki gengu hins vegar skrefinu lengra og ákváðu að draga aðrar aðfararhæfar eignir ekki frá niðurfellingu sem var sérstaklega til hagsbóta fyrir eignameiri einstaklinga. Þeir sem hins vegar skulduðu Íbúðalánasjóði hafa ekki fengið nokkrar slíkar ívilnanir, auk þess sem aðrar aðfararhæfar eignir hafa oft verið hátt metnar að mati eftirlitsnefndar með sértækri skuldaaðlögun sem fór í gegnum málin m.a. hjá Íbúðalánasjóði. Það er ekki lagaheimild fyrir því að fara aftur í gegnum 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði eins og bankarnir virðast hafa leyft sínum viðskiptavinum. Einnig er mjög skýrt ákvæði í lögum um Íbúðalánasjóð hvað þarf að draga frá við leiðréttinguna, þ.e. aðfararhæfar eignir svo sem eins og í þessu tilviki ónýtur bíll og órekstrarhæft fyrirtæki.

Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar sem ég nefndi var 110%-leiðin mjög mikið gagnrýnd, talað var um að úrræðið væri útfært of þröngt og með nokkrum breytingum hefði mátt gera það einfaldara og fljótlegra í framkvæmd.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hyggst hann veita Íbúðalánasjóði lagaheimild til að veita aftur 110% leiðréttingu í tilfellum þeirra lántaka sem eru enn með skuldsetningu á fasteignum yfir 110% eftir leiðréttingu?

2. Hyggst ráðherra endurskoða önnur ákvæði laga um Íbúðalánasjóð til að tryggja sambærilega leiðréttingu (Forseti hringir.) á fasteignalánum og hjá Landsbankanum?