140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

leiðrétting fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði.

282. mál
[19:53]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég hyggist veita Íbúðalánasjóði lagaheimild til að breyta útfærslum á 110%-leiðinni og hvort ég hyggist endurskoða ákvæðin varðandi Íbúðalánasjóð til að tryggja leiðréttingu fasteignalána miðað við það sem Landsbankinn gerði.

Svarið er að ég hef ekki sett fram lagafrumvarp um þetta og ekki tekið ákvörðun um að gera tillögu um slíkt. Það er náttúrlega fyrst og fremst Alþingi Íslendinga sem ákveður og setur raunar rammann með lagafrumvarpi. Hv. þingmaður fór ágætlega í gegnum það. Hér varð samkomulag í desember síðastliðnum þar sem menn sammæltust um lágmarksaðgerðir varðandi þessa 110%-leið, en útfærslan varð síðan ólík og var það svo sem í samræmi við það sem menn gátu búist við vegna þess að hverri og einni lánastofnun var heimilt að gera þetta með sínum hætti.

Það sem er athyglisvert og erfitt í þessu er spurningin hvort menn ætla að fara af stað aftur og rýmka reglurnar af því Alþingi tók þá afstöðu að leggja ætti til grundvallar matsverð eða fasteignamat eftir því hvort væri hærra. Það var annar hlutinn. Hins vegar átti að meta aðfararhæfar eignir. Þetta var hvort tveggja ákveðið í lögum. Það eru til nefndarálit sem skýra þetta út og fara mjög vel í gegnum þetta. Ef við mundum breyta þessum reglum og færa t.d. bara niður lán þeirra sem hafa sótt um og tækjum ekki nýja aðila inn værum við að tala um verulega háar upphæðir. Ef við tækjum líka út eignamörkin værum við að tala um 20 til 30 milljarða sem Íbúðalánasjóður þyrfti að greiða. Skattgreiðendur mundu greiða það beint vegna þess að Íbúðalánasjóður hefur ekkert annað að fella niður eins og hefur verið gert hjá Landsbankanum sem hefur notað niðurfærsluna til að færa niður yfirdrætti og bjarga lánasöfnum viðkomandi aðila.

Það má segjast að samtals hafa 6,4 milljarðar verið afskrifaðir vegna 110%-leiðarinnar hjá 2.400 heimilum. Umsóknirnar voru 5.742. Að baki þeim eru 5.200 heimili. Að meðaltali hafa niðurfærslurnar sem sagt verið 1,7 milljónir. Að óbreyttri framkvæmd áætlar Íbúðalánasjóður að heildarafskriftirnar verði samkvæmt 110%-leiðinni um 7,7 milljarðar.

Áætlað er að 110%-leiðin kosti sem sagt um 19,1 milljarð sé miðað við að fasteignamat ársins í staðinn fyrir að taka það mat sem hærra er. Þegar menn vanda vinnuna virðist matið vera svona almennt u.þ.b. 10% hærra en fasteignamat, sem kemur að vísu verulega á óvart, en þannig hefur það verið og líka í sölu á viðkomandi eignum þar sem reynt hefur á það. En ef við breyttum þessu og færðum lánin niður í fasteignamat og notuðum eingöngu hópinn sem sótti um yrði það 19,1 milljarður til viðbótar.

Ef við færum út í það að taka líka út, eins og ég segi, það sem menn eiga í bílum og öðru slíku þar sem farið var eftir skattframtölum, að vísu gátu menn síðan gert athugasemdir við það og fengu þá leiðréttingar ef ástæða var til ef matið var of hátt, þá mundi það kosta 1,3 milljarða til viðbótar við þennan ramma.

Það er sem sagt í höndum okkar að meta hvort rétt sé að fara í frekari leiðréttingu en þá held ég að óhjákvæmilegt sé, ef þetta fer af stað aftur, að bjóða fólki að sækja um upp á nýtt. Þá kemur sá vandi inn í dæmið sem er þekktur og hv. þingmaður vakti athygli á að miðað er við ákveðna dagsetningu í lögunum sem er 1. janúar, stöðu eigna á þeim tíma, og þá verðum við að finna út nýja stöðu. Nú hefur verð á markaði breyst mjög mikið, eða a.m.k. þessi 10% ef við förum í aðra umferð með 110%-leiðina. Þetta er því gríðarlega mikið álitamál. Ég ætla ekki að útiloka að það verði skoðað. Það hefur raunar verið skoðað ítrekað og við höfum fylgst með því en ég hef ekki treyst mér til þess að stinga upp á því að ráðstafa slíkum fjármunum. Við settum 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð í desember síðastliðnum í fjárlögum þá. Spurning er hvort við eigum að setja aftur inn einhverja tugi milljarða til þess að tryggja þessa leið vitandi það að til viðbótar koma svo niðurfærslur hjá lánasjóðnum sem eru til einstaklinga og áætlað er að séu allt að 5 milljarðar hjá þeim sem ekki hafa farið 110%-leiðina en eru í vanskilum af ýmsum öðrum ástæðum og í vandræðum í tengslum við það.

Svarið er því að ég hef ekki tekið ákvörðun um að koma með lagabreytingar eða gera tillögu um þær. Ég hef rætt þetta við aðila, en það er í sjálfu sér opið. Það er þá fyrst og fremst spurning hvernig við sköffum þessa peninga (Forseti hringir.) og Alþingi verður að standa á bak við það.