140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

leiðrétting fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði.

282. mál
[19:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans. Eitt vil ég taka sérstaklega fram. Það virðist vera mjög gjarnt hjá þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna að tala um að náðst hafi gífurleg samstaða um þessa 110%-leið á þingi og þann lagaramma sem Íbúðalánasjóði var settur. Ég held að almenna viðhorfið hjá okkur í stjórnarandstöðunni hafi verið að þetta væri skárra en ekki neitt og þess vegna vorum við tilbúin til að styðja þetta mál en ekki vegna þess að það væri nákvæmlega eins og við vildum hafa það, eins og hefur margoft komið fram hjá okkur.

Það sem ég vil benda á er að í skýrslu eftirlitsnefndar með skuldaaðlögun er bent á nokkrar leiðir til að láta þessa aðferð ganga betur. Talað var um að miða við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis á ódýrari eignum því að það munar ekki svo miklu þar á, láta aðrar aðfararhæfar eignir ekki dragast frá niðurfærslu að ákveðnu marki og taka upp fríeignamark með fastri upphæð í stað þess að miða við ráðstöfunartekjur. Það hefði mátt einfalda og flýta málum.

Ég veit líka, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið í velferðarnefnd, að verið er að skoða sérstaklega vanda þeirra sem eru með lánsveð. Ég er mjög spennt að sjá hvort það verði eitthvað sem ráðherrann hyggst koma með inn í þingið eða hvort menn þurfi að ná samkomulagi fyrir utan þingið hvað það varðar.

Ég á svolítið erfitt með að skilja reikningsaðferðir Íbúðalánasjóðs. Eins og kom fram hjá ráðherranum voru settir í kringum 33 milljarðar inn í sjóðinn, m.a. á þeim forsendum að í kringum 10 þús. manns mundu sækja um 110%-leiðina, síðan sóttu helmingi færri um og held ég 1/4 eða 1/5 af þeim hafi verið hafnað á grundvelli þess að þeir uppfylltu ekki skilyrðin.

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði er þegar búið að setja þessa (Forseti hringir.) niðurfærslu inn á varúðarsjóð hjá sjóðnum. Spurningin er því hvort við þurfum ekki að fara að færa þetta niður, eins og var áætlað, en ekki gera ráð fyrir að þurfa að bæta við enn meiri (Forseti hringir.) upphæðum þarna inn.