140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[20:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, viðmið er kannski réttara að kalla það vegna þess að um er að ræða viðmið sem utanríkisráðherra Norðmanna hefur nefnt við aðildarumsókn Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum en ekki, að því er ég veit best og man best um það mál, hvort Norðmenn ætli að viðurkenna Palestínu sem frjálst og fullvalda ríki. Hér virðist orðalag vera brenglað á ýmsan hátt.

Já, það er hætt við að lítill nætursvefn verði hjá mér að bíða eftir sjálfstæðismönnum og atkvæðum þeirra á morgun, en ég vil þá nota tækifærið og lýsa þeirri ósk minni að þeir sitji að minnsta kosti sem flestir hjá eða greiði ekki atkvæði þannig að Alþingi geti afgreitt þessa tillögu með helst öllum greiddum atkvæðum þótt ekki verði hún, því miður, afgreidd einum rómi eins og við hæfi hefði verið. Ég tek þó eftir því og met það, og tel að við eigum að gera það, að sjálfstæðismenn lýsa í þessu minnihlutaáliti yfir stuðningi við tveggja ríkja lausnina og nefna að lokum markmiðið sem er það að Ísraelsmenn og Palestínumenn geti búið saman við viðurkennd landamæri í friði í sínum löndum. Ég tek undir að það er markmiðið þó að okkur greini á um leiðir að því.