140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég vona að hafi komið skýrt fram í máli mínu er það ekki þannig að við sem erum ekki stuðningsmenn þess að stíga þetta skref svo skilyrðislaust, eins og íslensk stjórnvöld eru tilbúin að gera með þessari tillögu, erum við þrátt fyrir það stuðningsmenn friðar í Palestínu og við erum stuðningsmenn palestínsku þjóðarinnar. Við viljum að endatakmarkið sé nákvæmlega það sem hér hefur verið rætt um, friður í þeim heimshluta þannig að ekki sé einhliða verið að gefa eftir í friðarviðræðum þar sem menn hafa deilt um áratugaskeið. Það er það sem þetta snýst um og þessi afstaða okkar er nákvæmlega sú sama og þeirra þjóða sem hafa sem mest beitt sér á því svæði, hafa mesta reynsluna af því hvað þar er um að ræða.

Ég greip til gamans með mér bók sem var lögð í hólf okkar þingmanna allra sem heitir Sonur Hamas – grípandi frásaga af skelfingu, svikum, pólitísku launráði, og óhugsanlegum valkostum. — Menn fara hér að hlæja, það er nú ágætt en þetta var ekki skemmtilesning. Í formálanum segir, með leyfi forseta:

„Hver nýr aðili á alþjóðavettvangi heldur að hann verði sá sem leysir deilur araba og Ísraela. Hverjum og einum mistekst þó jafnilla og þeim sem á undan fóru. Staðreyndin er sú að fáir Vesturlandabúar komast nálægt því að skilja flækjur og erfiðleika Miðausturlanda og íbúa þeirra.“

Við viljum ítreka þetta, við eigum að reyna að fara þarna með varúð í huga, ekki halda að við getum komið eins og frelsandi englar og leyst vandamál (Forseti hringir.) sem er búið að vera til staðar um áratugaskeið. Við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna að friði sem samræmist öllu og tekur tillit til allra sjónarmiða á svæðinu.